Hvar á þetta nýja álver að vera?

Frá Hafursstöðum.
Frá Hafursstöðum.

Í dag var greint frá því að í skoðun væri að fara í uppbyggingu og rekstur á 120.000 tonna álveri á fyrirhuguðu iðnaðarsvæði við Hafursstaði í Skagabyggð. En hvar eru Hafursstaðir og hverjir standa á bak við þessi áform? Mbl.is skoðaði málið aðeins nánar, en félagið sem stýrir verkefninu áformaði árið 2013 að reisa samskonar álver á Bakka.

Það er félagið Klappir Development ehf. sem stendur á bak við verkefnið, en forsvarsmaður og einn stærsti eigandi þess er Ingvar Unnsteinn Skúlason. Ásamt honum kemur kínverska félagið NFC að verkefninu, en það er eitt af stærri fyrirtækjum í heiminum og sérhæfir sig í léttmálmvinnslu víða um heiminn.

Stutt frá þremur byggðarlögum

Ingvar segir að þessi staðsetning hafi orðið fyrir valinu vegna þess að staðurinn þyki henta vel fyrir höfn. Meðal annars hafi Siglingamálastofnun gert mat á staðnum þegar í skoðun var að reisa álver á bakka. Þá segir hann nálægð við bæina Skagaströnd, Sauðárkrók og Blönduós spila stórt hlutverk, þannig sé aðeins 5 mínútna akstur á Skagaströnd frá væntanlegum uppbyggingarstað, 10 mínútur á Blönduós og 25 mínútur á Sauðárkrók. Þegar staðsetningin var metin var einnig gert kostnaðarmat og segir Ingvar að það hljóði upp á um 3,5 til 4 milljónir fyrir uppbyggingu hafnarinnar.

Gangi áform félagsins eftir væri framkvæmdin við uppbyggingu hafnarinnar og álversins á vegum Klappa og er heildarkostnaður við framkvæmdirnar metinn á um 75-78 milljarðar. Ingvar segir að þegar höfnin væri tilbúin myndi sveitarfélagið taka hana yfir með eignum og skuldum og reka hana, eins og venjan er með aðrar hafnir kringum landið.

Orkan á að fara til heimamanna

Orkuþörf álvers af þessari stærðargráðu er 206 megavött að sögn Ingvars, en framleiðslugetan er 120.000 tonn. Segir hann að gert sé ráð fyrir að 150 megavött muni koma frá Blönduvirkjun, en þegar virkjunin var reist á sínum tíma gerði Landsvirkjun samkomulag við heimamenn um að orka úr virkjuninni yrði notuð í iðnað á svæðinu yrði að slíkri uppbyggingu.

Hann segist gera sér grein fyrir því að Landsvirkjun geti ekki fært orkuna yfir meðan þeir fái ekki að virkja annarsstaðar og séu skuldbundnir öðrum fyrirtækjum. Það sé þó ekki í lagi ef Landsvirkjun sé ekki gert kleift að standa við skuldbindingar sínar gagnvart öðrum landshlutum en suðvestur horninu. „Það er ekki náttúrulögmál að öll orka fari til nágrennis Reykjavíkur,“ segir Ingvar.

Samþykkir viðmiðum Landsvirkjunar til orkusölu

Undanfarin ár hefur Landsvirkjun gefið út að fyrirtækið vilji minnka áhættu sína vegna álverðs og hefur verið að hækka verðskrá sína til stórnotenda. Ingvar segir að gert sé ráð fyrir því í áætlun Klappar og að þeir samþykki alveg þá stefnu sem Landvirkjun hefur sett sér í sölu á raforku. Sagði hann að raforkusamningur yrði alltaf byggður á því plani sem Landsvirkjun hefur lagt varðandi orkusölu til framtíðar.

Hefur verið í álbransanum í 30 ár

Í lok mánaðarins munu forsvarsmenn frá NFC koma til landsins og segir Ingvar að þá verði frekari upplýsingar um eigendur og aðstandendur verkefnisins gefnar út. Hann nefnir þó að NFC sé risastórt alþjóðlegt fyrirtæki og sé á lista yfir 500 stærstu fyrirtæki í heimi. Það reki álver í Ástralíu, Kína og á nokkrum öðrum stöðum í Asíu. Sjálfur er Ingvar uppalinn Reykvíkingur, en hann segist hafa búið lengi í Bandaríkjunum þar sem hann seldi vélbúnað á Kínamarkað. Þá hafi hann verið tengdur álgeiranum undanfarin 30 ár.

Þegar verkefnið var í skoðun fyrir Bakka árið 2013 var Ingvar í viðtali við Morgunblaðið. Sagði hann þá að það hefði verið kynnt íslenskum lífeyrissjóðum og að vonir hafi verið til þess að þeir kæmu að uppbyggingunni. Sagði hann þá að áformað væri að eignarhaldið yrði að stórum hluta í eigu íslenskra fjárfesta.

Staðsetning fyrirhugaðs álvers í Skagabyggð.
Staðsetning fyrirhugaðs álvers í Skagabyggð. Mynd/Ja.is
Iðnaðarsvæðið á að vera rétt norðan við Hafsstaðaá, en það …
Iðnaðarsvæðið á að vera rétt norðan við Hafsstaðaá, en það er um 5 km sunnan við Skagaströnd. Mynd/Ja.is
Fyrirhuguð uppbygging álversins við Hafursstaði.
Fyrirhuguð uppbygging álversins við Hafursstaði.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka