Á Tuk Tuk um götur borgarinnar

Þeir eru smáir en knáir og komast nánast hvert sem er. Svona er Tuk Tuk vögnum sem einkenna götur Asíu oft lýst en slíkir vagnar eru nú farnir að sjást á götum Reykjavíkurborgar. mbl.is skoðaði þessi rafknúnu þríhjól og kíkti á rúntinn.

Það er ferðaþjónustufyrirtækið TukTuk Tours sem heldur utan um ferðirnar, en á bak við fyrirtækið standa þeir Kolbeinn Óttarsson Proppé, blaðamaður og fyrrum upplýsingafulltrúi Strætó, Ólafur Guðmundsson, sem rekur íbúðahótelið Ambassade Apartments í Reykjavík og Páll Brinks Fróðason, skrúðgarðyrkjumeistari.

Tuk Tuk vagnarnir eru framleiddir í Hollandi en þeir eru rafknúnir og afar umhverfisvænir að sögn Kolbeins. Öryggisbelti eru í vögnunum ásamt því sem hiti er í sætum og hægt er að loka farþegarýminu. 

Vagnarnir komast víða þar sem stærri farartæki, svo sem rútur, komast ekki og segir Kolbeinn ferðamenn því fá nýja upplifun á borginni. Lögð er áhersla á að sýna ferðamönnum þá hluta Reykjavíkur sem þeir sjá almennt ekki í öðrum skipulögðum ferðum, en ásamt því að keyra á hefðbunda ferðamannastaði í miðbænum er einnig farið í gömlu íbúðahverfin í Grjótaþorpinu, Þingholtunum og Vesturbænum.

Ferðirnar byrja og enda við Hörpu en fyrirtækið hefur einnig fengið leyfi til að vera á Skarfabakka þegar skemmtiferðaskipin koma þangað. 

Sex þríhjól eru komin í notkun og að sögn Kolbeins verður boðið upp á ferðir alla daga vikunnar í sumar. Hann segir fyrirtækið þó komið til að vera og því sé stefnan að halda áfram í haust og vetur. Vagnarnir hafi verið notaðir í svissnesku Ölpunum og því ættu þau að ráða við íslenska veturinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert