Gelt, gaman og gleði í dagvistun

Benedikt Aron gaukar nammi að hundunum sem eru í dagvistuninni …
Benedikt Aron gaukar nammi að hundunum sem eru í dagvistuninni og ekki er annað að sjá en að þeim líki það mjög vel. Rétt eins og á leikskólum byrja hundarnir á því að koma í aðlögun í skamman tíma í senn mbl.is/Golli

Það er líf og fjör í dagvistun fyrir hunda í Hundaheimum, en þar geta hundar dvalið meðan eigendurnir eru að heiman. Þegar Morgunblaðið leit inn tóku sex fjörugir hundar á móti blaðamanni og vildu ólmir bregða á leik og sýndu það í verki með því að lauma bolta í lófa hans. Hundunum þarf ekki að leiðast yfir daginn því nægur er félagsskapurinn í dagvistuninni, hvort tveggja af öðrum hundum og umsjónarmönnum þeirra.

„Þetta gengur mjög vel og það hefur verið nóg að gera frá því við opnuðum,“ segir Benedikt Aron Salómeson, eigandi Hundaheima, glaðlega. Dagvistunin á Korputorgi hefur verið starfrækt í rúma þrjá mánuði. Þegar rýmið sem dagvistunin er í losnaði ákvað Benedikt að láta slag standa og opna dagvistun fyrir hunda. Hann hefur lært hundaþjálfun og starfað í mörg ár í gæludýrabransanum. Hann segir hundana einstaklega skemmtileg dýr sem hann hefur yndi af að þjálfa og umgangast.

Ólíkar tegundir

Í Hundaheima geta eigendur komið með hundinn að morgni og náð svo í hann í lok dags. Hundarnir koma fyrst í aðlögun og er algengt að hundurinn dvelji fyrst í um þrjá tíma í fyrsta skipti, en þá fara hundarnir í gegnum mat þar sem könnuð er líðan hundsins og skapferli. Benedikt segir að vel hafi gengið með flestalla hundana en þeir eru þó með ólíka skapgerð og því tekur það hundana mislangan tíma að aðlagast. Fyrst eru þeir látnir hitta einn hund í einu og ef það gengur vel bætist sá næsti við og svo koll af kolli. Einnig er hægt að stúka svæðið af og er það gert þegar margir hundar eru í einu.

Hundarnir eru viðraðir oft á dag svo að þeir geri ekki stykki sín inni. Þá er gengið með þá að minnsta kosti einn kílómetra á dag. Á svæðinu fyrir hundana er nóg af leikföngum, boltar, tuskudýr, hundabæli og margt fleira.

Benedikt vill ekki gera upp á milli hundategunda og segir þær allar skemmtilegar, hverja á sinn hátt. Hann bendir þó á að mikilvægast sé að ala hundinn vel upp frá byrjun og mælir hann með hundanámskeiði fyrir alla hundaeigendur.

Fimm hvolpum var bjargað

„Ég á þessa svörtu. Hún heitir Nótt og er alveg einstaklega skemmtileg,“ segir Benedikt Aron og bendir á spengilega svarta tík með sperrt eyru. Hún er blendingur af tegundunum labrador og samoyed, sem er sleðahundategund.

Benedikt eignaðist tíkina óvænt. „Hún átti ekki að fæðast. Eigandinn ætlaði að lóga henni og öllum hvolpunum í sama goti en það voru fimm hvolpar. Ég tók þá alla að mér og fann eigendur handa þeim öllum. Nótt var sú eina sem eftir varð,“ segir Benedikt um leið og hann gaukar góðgæti að Nótt.

Benedikt hefur hug á að flytja inn hund af sömu tegund svo þau geti fjölgað sér því hundar af þessari tegund eru mjög geðgóðir, að hans sögn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert