Tilkynntum kynferðisbrotum fjölgar

Tilkynningum um kynferðisbrot fjölgaði töluvert í maí þegar 33 brot …
Tilkynningum um kynferðisbrot fjölgaði töluvert í maí þegar 33 brot voru tilkynnt til lögreglu, en tilkynnt brot í einum mánuði hafa ekki verið fleiri síðan í maí 2013 þegar þau voru 45. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þetta kemur í sveiflum en það er töluvert af kærum sem hafa komið til okkar þennan mánuðinn og síðasta,“ segir Kristján Ingi Kristjánsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um kynferðisbrot sem tilkynnt hafa verið til embættisins að undanförnu.

Tilkynningum um kynferðisbrot fjölgaði töluvert í maí þegar 33 brot voru tilkynnt til lögreglu, en tilkynnt brot í einum mánuði hafa ekki verið fleiri síðan í maí 2013 þegar þau voru 45. Til viðmiðunar voru 16 brot tilkynnt í aprílmánuði og 19 í mars.

Að sögn Kristjáns má þó ekki tengja þetta beint við aukna umfjöllum um kynferðisbrot á samfélagsmiðlum en eins og fjallað hefur verið um hófst átakið #þögg­un á lokaða Face­book hópn­um Beauty Tips þar sem kon­ur og stúlk­ur hafa skipts á reynslu­sög­um af kyn­ferðisof­beldi síðustu vik­ur. 

Þöggunin að minnka

Tilkynningar um kynferðisbrot hafa farið vaxandi á síðustu árum, en að sögn Kristjáns Inga er þöggunin í kringum slík brot að minnka. „Ég hef verið í svona rannsóknum frá árinu 1997 og ég held að þöggunin hafi minnkað mikið og fólk komi frekar fram núna en fyrir tíu til fimmtán árum. Það er töluverður munur.“

Hann segir þó alltaf ákveðna þöggun vera í kringum þessi brot. „Þetta eru brot sem fara leynt bæði á meðal brotamanna og brotaþola. En ég held að öll umræða sé af hinu góða og opni kannski frekar fyrir það að fólk stígi fram með sín brot og tilkynni þau til yfirvalda.“

Sprengja árið 2013

Árið 2010 voru 197 brot tilkynnt til lögreglu, en þeim fjölgaði ár frá ári þar til sprengja varð í tilkynningum árið 2013 þegar 398 brot voru tilkynnt. Þá voru kynferðisbrot gegn börnum fleiri en nokkru sinni, sem rekja mátti að einhverju leyti til mikillar fjölmiðlaumfjöllunar í upphafi ársins um ítrekuð kynferðisbrot Karls Vignis Þorsteinssonar, sem var sama ár dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn þremur mönnum.

Á síðasta ári voru 238 brot tilkynnt til lögreglu og það sem af er ári hafa 122 brot verið tilkynnt. Eins og fram kom voru tilkynningar í maí sl. 33, en tilkynnt brot í einum mánuði hafa ekki verið fleiri síðan í maí 2013.

Hvetja fólk til að tilkynna brot

Kristján Ingi segir sögusagnir þess efnis að lögregla hafi elt uppi þá sem hafa tjáð sig á hópnum og eru undir aldri þó ekki byggðar á staðreyndum. „Við förum aðeins af stað ef það er rökstuddur grunur um að viðkomandi hafi orðið fyrir broti. En það hafa ekki borist neinar tilkynningar tengdar því.“

Kristján segist þó hvetja alla þá sem telja að á sér hafi verið brotið eða eru í vafa um það að hafa samband við lögregluna. „Við getum þá farið yfir brotin með viðkomandi og viljum hvetja til þess að fólk hafi samband.“

Sprengja varð í tilkynningum á kynferðisbrotum árið 2013 þegar 398 …
Sprengja varð í tilkynningum á kynferðisbrotum árið 2013 þegar 398 brot voru tilkynnt. mbl.is
mbl.is/Þórður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert