Á bæjarstjórnarfundi sem nýhafinn er á Akureyri eru eingöngu konur og er það í fyrsta skipti í sögu bæjarins. Í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna til Alþingis var ákveðið að eingöngu kvenbæjarfulltrúar sitji fundinn og gegnir Sigríður Huld Jónsdóttir embætti forseta.
Bæjarfulltrúar dagsins eru, auk Sigríður Huldar, Anna Hildur Guðmundsdóttir, Bergþóra Þórhallsdóttir, Dagbjört Elín Pálsdóttir, Eva hrund Einarsdóttir, Halldóra Kristín Hauksdóttir, Ingibjörg Ólöf Isaksen, Margrét Kristín Helgadóttir, Silja Dögg Baldursdóttir, Sóley Björk Stefánsdóttir og Þórunn Sif Harðardóttir.
Þær konur sem hafa verið bæjarfulltrúar á Akureyri í gegnum tíðina voru hvattar til þess að koma í bæjarstjórnarsalinn og hlýða á fundinn. Tíu fyrrverandi bæjarfulltrúar eru á fundinum, allt konur að sjálfsögðu, en eini karlinn sem þar er í opinberum erindagjörðum er Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri. Hann fékk að vera með á myndinni af konunum, eins og sjá má!
Eitt þeirra mála sem tekið er fyrir á fundinum er tillaga um að Akureyrarbær kaupi og setji upp listaverk til heiðurs Vilhelmínu Lever, fyrstu konunnar sem kaus til bæjarstjórnar á Akureyri, 31. mars 1863, áður en konur höfðu öðlast kosningarétt, í skjóli þess að konur væru líka menn. Í lögum var kveðið á um að kosningarétt hefðu „allir fullmyndugir menn“. Hún átti nokkur hús í innbæ Akureyrar og rak þar verslun.
Listaverkið verður gjöf til bæjarbúa í tilefni af 100 ára kosningarafmælis kvenna til Alþingis. Bæjarstjóra verður falið að leita til listakonu til að vinna verkið.