Makríll teppir þingið

Alþingishúsið.
Alþingishúsið. mbl.is/Júlíus

Þingfundi á Alþingi hefur nú verið frestað í fjórða sinn í dag en hann átti samkvæmt dagskrá að hefjast klukkan 11 í morgun. Stendur nú til að halda þingfund klukkan tvö.

Í samtali við mbl.is segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, ástæðu frestunar vera þá að þingmenn séu á nefndarfundum. Þegar fundi var frestað í þriðja sinn sagðist hann aðspurður eiga von á því að þingfundur hefjist klukkan hálftvö. Honum hefur hins vegar verið slegið enn einu sinni á frest.

Í morgun var haldinn fundur í atvinnuveganefnd þar sem meðal annars var tekið fyrir frumvarp ríkisstjórnar um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og fyrsti varaformaður nefndarinnar, segir að lagðar hafi verið fram breytingartillögur við frumvarpið. Þær tillögur eru ástæða frestunar þingfunda.

„Það var fundur í atvinnuveganefnd í morgun og þar voru lagðar fram breytingartillögur sem stjórnarandstöðunni fannst vera óásættanlegar,“ segir Lilja Rafney og bætir við að í grófum dráttum kveði þær á um að úthlutunartími, sem upphaflega átti að vera til sex ára, styttist. Á móti yrði makríllinn kvótasettur.

Taldi Lilja Rafney samkomulag uppi þess efnis að makrílnum yrði úthlutað með óbreyttum hætti næsta ár. Segir hún breytingartillöguna ekki í samræmi við það.

„Í raun er bara verið að taka stórt skref inn í núverandi kvótakerfi,“ segir Lilja Rafney. „Við töldum að halda ætti þessu óbreyttu næsta árið en svo yrði allt undir þegar við tökum fyrir heildarendurskoðun á stjórn fiskveiða,“ segir hún og bendir á að þetta sé ekki í samræmi við það sem lagt var upp með í samkomulagi formanna þingflokka.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, staðfestir þetta. „Menn eru helst að velta fyrir sér makrílmálinu,“ segir hann. „Það þarf aðeins að fara yfir þetta mál og það er það sem við erum að gera núna.“ 

Yfir 51.000 manns hafa skorað á forseta Íslands að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu  „hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.“

Fyrri frétt mbl.is

Þingfundi frestað í tvígang

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert