Staðfesti farbann yfir stúlkunni

Búið er að yfirheyra stúlkuna fjórum sinnum vegna málsins.
Búið er að yfirheyra stúlkuna fjórum sinnum vegna málsins. Brynjar Gauti

Hæstiréttur staðfesti í gær framlengt farbann yfir hollensku stúlkunni sem grunuð er um að hafa reynt að smygla um tuttugu kílóum af fíkniefnum til landsins. Stúlkunni, sem fædd er árið 1997, er gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 26. júní.

Stúlkan kom með flugi til landsins ásamt móður sinni föstudaginn 3. apríl. Tollverðir á Keflavíkurflugvelli höfðu afskipti af þeim og við leit í farangri fundust meint fíkniefni.

Búið er að yfirheyra stúlkuna fjórum sinnum vegna málsins en móður hennar í þrígang. Greindi stúlkan frá því að hún hefði ekki áður komið til landsins, mæðgurnar hefðu ætlað að vera í fríi hér og hefði móðir hennar pakkað ofan í tösku fyrir þær.

Rannsókn málsins er á lokastigi, líkt og segir í úrskurði héraðsdóms Reykjaness. Enn er nokkur vinna eftir við málið en lögregla er bjartsýn á að rannsókninni, hvað varðar hlutdeild stúlkunnar, ljúki á næstum dögum. Bindur lögregla vonir við að afhenda ríkissaksóknara málið til meðferðar í dag, 16. júní.  

Fréttir mbl.is um málið: 

Hollenska stúlkan enn í farbanni

Hollensk stúlka í farbann

Mæðgur reyndu að smygla fíkniefnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert