Þingfundi á Alþingi hefur verið frestað í tvígang í dag en hann átti samkvæmt dagskrá að hefjast klukkan 11 í morgun. Er nú áformað að halda þingfund klukkan hálfeitt.
Klukkan 11 í morgun frestaði Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, fyrirhuguðum þingfundi um hálfa klukkustund. Var fundinum því næst frestað til klukkan hálfeitt, en ástæða frestunar liggur ekki ljós fyrir.
Samkvæmt dagskrá átti fundurinn að hefjast á umræðu um störf þingsins.
Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu voru eftirfarandi mál á dagskrá ríkisstjórnarinnar í dag:
Forsætisráðherra - Einföldun regluverks og staða mála
Forsætisráðherra/innanríkisráðherra - Samráð á netinu og stofnun samráðsvettvangs ráðuneyta um einföldun regluverks og fleira.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra - Aflaráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fiskveiðiárið 2015/2016.