Þingfundi frestað um 6 klst

Þingfundur er ekki enn hafinn.
Þingfundur er ekki enn hafinn. mbl.is/Kristinn

Þingfundi á Alþingi hefur nú verið frestað til klukkan 17 en hann átti samkvæmt dagskrá að hefjast klukkan 11 í morgun. Ástæða þessarar sex klukkustunda seinkunar er sögð vera breytingartillaga við makrílfrumvarp ríkisstjórnar.

Haldinn var fyrr í dag fundur í atvinnuveganefnd. Á honum var lögð fram breytingartillaga við frumvarp ríkisstjórnar um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl. Þingmenn stjórnarandstöðuflokka segja breytingarnar stangast á við fyrra samkomulag þess efnis að makrílnum yrði úthlutað með óbreyttum hætti næsta ár. 

Lilja Raf­ney Magnús­dótt­ir, þingmaður Vinstri grænna og fyrsti vara­formaður atvinnuveganefnd­ar­, segir þetta útspil óásættanlegt en í breytingartillögunni er kveðið á um að úthlutunartími, sem upphaflega átti að vera til sex ára, styttist. Yrði makríllinn einnig kvótasettur.

„Í raun er bara verið að taka stórt skref inn í nú­ver­andi kvóta­kerfi,“ sagði Lilja Raf­ney í samtali við mbl.is fyrr í dag og bætti við: „Við töld­um að halda ætti þessu óbreyttu næsta árið en svo yrði allt und­ir þegar við tök­um fyr­ir heild­ar­end­ur­skoðun á stjórn fisk­veiða.“

Jón Þór Ólafs­son, vara­formaður þing­flokks Pírata og áheyrn­ar­full­trúi í at­vinnu­vega­nefnd, segir þingið nú komið í upp­nám. „Þeir vilja af­greiða þetta fyr­ir þinglok en það er nú eng­inn tími til þess ætli menn að ljúka þingi um miðja næstu viku,“ seg­ir hann. 

Yfir 51.000 manns hafa skorað á for­seta Íslands að vísa í þjóðar­at­kvæðagreiðslu  „hverj­um þeim lög­um sem Alþingi samþykk­ir þar sem fisk­veiðiauðlind­um er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekk­ert ákvæði um þjóðar­eign á auðlind­um hef­ur verið sett í stjórn­ar­skrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyr­ir af­not þeirra.“

Fyrri fréttir mbl.is

Jón Gunnarsson „strikes again“

Makríll teppir þingið

Þingfundi frestað í tvígang

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert