Þingfundi á Alþingi hefur nú verið frestað til klukkan 17 en hann átti samkvæmt dagskrá að hefjast klukkan 11 í morgun. Ástæða þessarar sex klukkustunda seinkunar er sögð vera breytingartillaga við makrílfrumvarp ríkisstjórnar.
Haldinn var fyrr í dag fundur í atvinnuveganefnd. Á honum var lögð fram breytingartillaga við frumvarp ríkisstjórnar um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl. Þingmenn stjórnarandstöðuflokka segja breytingarnar stangast á við fyrra samkomulag þess efnis að makrílnum yrði úthlutað með óbreyttum hætti næsta ár.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og fyrsti varaformaður atvinnuveganefndar, segir þetta útspil óásættanlegt en í breytingartillögunni er kveðið á um að úthlutunartími, sem upphaflega átti að vera til sex ára, styttist. Yrði makríllinn einnig kvótasettur.
„Í raun er bara verið að taka stórt skref inn í núverandi kvótakerfi,“ sagði Lilja Rafney í samtali við mbl.is fyrr í dag og bætti við: „Við töldum að halda ætti þessu óbreyttu næsta árið en svo yrði allt undir þegar við tökum fyrir heildarendurskoðun á stjórn fiskveiða.“
Jón Þór Ólafsson, varaformaður þingflokks Pírata og áheyrnarfulltrúi í atvinnuveganefnd, segir þingið nú komið í uppnám. „Þeir vilja afgreiða þetta fyrir þinglok en það er nú enginn tími til þess ætli menn að ljúka þingi um miðja næstu viku,“ segir hann.
Yfir 51.000 manns hafa skorað á forseta Íslands að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu „hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.“
Fyrri fréttir mbl.is