Tileinkaði Beauty Tips kransinn

Sóley Tómasdóttir tileinkaði Beauty tips byltingunni kransinn.
Sóley Tómasdóttir tileinkaði Beauty tips byltingunni kransinn. mbl.is/Eggert

„Um leið og þessi krans er þakklætisvottur til Jóns Sigurðssonar fyrir baráttu hans vil ég tileinka hann stelpunum okkar sem nú eru að berjast, Beauty tips byltingunni og framtíðarhetjum lands og þjóðar sem krefjast þess að við hlustum, breytum og bætum.“

Þetta sagði Sóley Tómasdóttir, borg­ar­full­trúi Vinstri grænna, í ávarpi sínu við leiði Jóns Sigurðssonar fyrr í dag. Sóley lagði krans á leiðið og tileinkaði hann byltingunni sem hefur átt sér stað á samfélagsmiðlum síðustu vikur.

Sagði hún kransinn tákna þakklæti Reykvíkinga til Jóns og samferðafólks hans sem tryggði sjálfstæði Íslendinga. Þá sagði hún Reykjavík fjölbreytt samfélag einstaklinga með ólíkar skoðanir, en lýðveldið væri þó ekki fullkomið. Þrátt fyrir að hvergi mældist meira jafnrétti í heiminum en á Íslandi væri enn kynbundinn launamunur auk þess sem það hallaði á konur í stjórnmálum, í fjölmiðjum og í atvinnulífi og kynbundið ofbeldi væri daglegt brauð.

„Þessu þarf að breyta. Jón barðist ekki fyrir stöðnun ekki frekar en konurnar sem nú krefjast breytinga í gegnum Beauty tips byltinguna. Í frjálsu og lýðræðislegu samfélagi verða konur og karlar að standa jafnfætis. Ekki bara að forminu til, heldur líka í atvinnulífi og stjórnmálum að ekki sé talað um einkalífið,“ sagði hún.

Þá sagði hún ofbeldislaust samfélag vera forsendu lýðræðis. Virk þátttaka myndi krefjast þess að fólk, konur jafnt sem karlar, gætu óttalaus gert það sem þeim sýndist, sagt það sem þeim sýndist og haft áhrif þá og þegar þeim sýndist. Brýnasta verkefni samfélagsins í dag væri að tryggja frið og öryggi og væri það sameiginlegt verkefni allra.

„Við getum tryggt frið sem einstaklingar með því að koma fram hvert við annað af nærgætni og virðingu. Grasrótarsamtök og fylkingar skapa samstöðu, valdeflingu og hugarfarsbreytingu og stuðla þannig að friði og öryggi. Stjórnvöldum ber svo að bregðast við kröfunni með réttarbótum og forvarnarstarfi. Þannig getum við í sameiningu útrýmt kynbundnu ofbeldi og skapað forsendur fyrir raunverulega lýðræðislegri þátttöku okkar allra.“

Ávarpið má lesa í heild á bloggsíðu Sóleyjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert