Guðmundur Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður er fyrsti íslenski lögreglumaðurinn til þess að taka þátt í kyndilhlaupi alþjóðlegs liðs lögreglumanna (Law Enforcement Torch Run, LETR) í aðdraganda alþjóðaleika Special Olympics. Hann er í 126 manna hópi sem hleypur lokaáfangann fyrir leikana, sem verða settir í Los Angeles 25. júlí næstkomandi.
Kennedy-fjölskyldan bandaríska stofnaði Special Olympics International árið 1968 með það að markmiði að bjóða upp á leika fyrir fólk með þroskahömlun, þar sem það keppti við jafningja sína. Þessir alþjóðaleikar hafa verið ríkur þáttur í lífi hjónanna Guðmundar og Karenar Ástu Friðjónsdóttur og barnanna þeirra fjögurra síðan sonurinn Sigurður, sem nú er 21 árs og keppir í knattspyrnu á leikunum, slasaðist alvarlega á höfði þegar hann var átta ára. Þetta hamlaði þroska drengsins og ýmsir fylgikvillar fylgdu í kjölfarið, en síðan kynntust þau Special Olympics og þá urðu kaflaskil. „Íþróttir fyrir fatlaða, meðal annars Special Olympics, björguðu honum félagslega og hann hefur þroskast mikið, er sjálfstæðari og sterkari,“ segir Guðmundur.
Ísland var fyrsta Norðurlandaþjóðin til þess að ganga í LETR. Í október 2013 var Guðmundur fulltrúi lögreglunnar á Íslandi og Karen Ásta fulltrúi Íþróttasambands fatlaðra á Evrópuráðstefnu hjá samtökunum og í nóvember 2013 stóð hann fyrir fyrsta kyndilhlaupi íslenskra lögreglumanna í sambandi við Íslandsleika Special Olympics. Þau eru nú orðin fjögur hérlendis. „Þessi hlaup eru til kynningar, stuðnings og styrktar Special Olympics,“ segir Guðmundur.
Rétt eins og á Ólympíuleikum er eldurinn sem logar meðan á keppni í Special Olympics stendur tendraður í Grikklandi og síðan hlaupið með hann í keppnislandinu hverju sinni þar til komið er á keppnisstað. Hinn 24. maí hófst hlaup með logann um öll ríki Bandaríkjanna, en hópur Guðmundar hleypur lokaáfangann í Kaliforníu 13.-25. júlí. Lögreglumenn frá 23 þjóðum taka þátt í lokaáfanganum og þar af 11 frá Evrópu (www.letr.-finalleg.org).
Evrópuleikar Special Olympics fóru fram í Belgíu í fyrrahaust og þá voru Guðmundur og Gunnar Schram með í kyndilhlaupi lögreglumannanna. Það var í fyrsta sinn sem íslenska lögreglan kom að Special Olympics á erlendri grundu.
Guðmundur segir það sérlega gefandi að fá tækifæri til þess að vinna fyrir fólk með þroskahömlun. „Þetta á ekkert skylt við Ólympíuleika fatlaðra enda eiga þessir keppendur enga möguleika á að komast á slíka leika en á Special Olympics geta allir verið með,“ segir hann. Guðmundur segir að þessir keppendur séu svo þakklátir og einlægir og þeim þyki mikið til þess koma að fá þennan stuðning frá lögreglunni. „Það gefur manni mjög mikið að finna að þetta skiptir fólkið mjög miklu máli,“ segir hann.
Íþróttasamband fatlaðra sendir 41 keppanda í níu greinar. Aðaláhersla er lögð á að styrkja sjálfsímynd iðkenda og allir eru sigurvegarar. „Við höfum verið sem ísbrjótur fyrir nýjar greinar og þátttakan er frábært tækifæri fyrir keppendur, sem blómstra gjarnan í kjölfarið,“ segir Anna K. Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi.