Færri karlar í fæðingarorlof

Sæunn Gísladóttir skrifaði um stefnumótun varðandi fæðingarorlof á Íslandi.
Sæunn Gísladóttir skrifaði um stefnumótun varðandi fæðingarorlof á Íslandi. mbl.is/hag

Hlutfall karla sem taka fæðingarorlof hefur lækkað úr 90% árið 2008, þegar það var hæst, niður í 80%. Sett var hámark á greiðslur fæðingarorlofssjóð árið 2005 en í sparnaðarskyni hafa greiðslurnar verið lækkaðar enn meira. Niðurstaðan er sú að færri karlar taka sér fæðingarorlof og þeir sem taka það fara í færri daga en áður. Þetta kemur fram í lokaverkefni Sæunnar Gísladóttur í hagfræði um stefnumótun varðandi fæðingarorlof á Íslandi. Sæunn hlaut fyrstu einkunn fyrir ritgerðina við St. Andrews háskólann í Skotlandi.

Aðspurð um hver hafi verið ástæðan fyrir vali á þessu efni segir Sæunn að fæðingarorlofskerfið á Íslandi sé afar lofað og hafi verið talsvert í umræðunni. Fyrir nokkrum árum fór hún svo að heyra fregnir þess efnis að karlmenn hefðu ekki efni á því að taka sér fæðingarorlof og varð það kveikjan að ritgerðinni.

Ekki lengur jöfn skipting

„Eins frábært og þetta kerfi okkar er þá er ekki lengur jöfn skipting á fæðingarorlofsréttindum,“ segir Sæunn. Hún skoðaði gögn frá Fæðingarorlofssjóði frá árunum 2011 og 2012 en var einnig með gögn frá 2013 til að sjá í hvað stefndi. Í upphafi var þátttaka karla góð og var um 90% árið 2008 en fór svo lækkandi eftir að greiðslurnar voru lækkaðar. „Fyrst voru menn að taka um 100 daga en svo lækkaði það um 10% niður í 90 daga sem þýðir að menn voru jafnvel að taka undir því sem leyfilegt er.“

Sæunn segir skiljanlegt að sett hafi verið hámark á greiðslur sjóðsins en í upphafi hafði það áhrif á sem fæsta og í raun einungis þá sem höfðu hæstu tekjurnar. Nú hefur kerfið breyst og hefur áhrif á fólk með meðaltekjur sem hefur ekki efni á því að missa af tekjum heimilisins. 

Skoðar mismunandi tekjuhópa

Í ritgerðinni eru skoðaðir nokkrir mismunandi tekjuhópar en Sæunn segir að auðvelt hafi verið að sjá hvenær skerðingin byrjaði að hafa áhrif. Karlmenn sem voru með á milli 500 og 750 þúsund í mánaðarlaun fóru úr 112 dögum árið 2004 niður í 83 árið 2011. Hún segir að í flestum tilvikum hafi konurnar tekið sameiginlega mánuðinn en það eigi sér eðlilegar skýringar þar sem að þær hafi börnin á brjósti og þurfi að jafna sig eftir barnsburðinn. „Það getur þó farið að ógna kerfinu ef atvinnurekendur fara að ráða starfsfólk í vinnu út frá því að konur taki sér lengra fæðingarorlof, sérstaklega þegar karlmenn taka minna en það sem leyfilegt er.“ Hún segir að til þess að karlar og konur fari að taka jafn löng leyfi þyrfti í raun að lengja þau úr níu mánuðum í tólf.

Sæunn segir að nú sé mikilvægast að hækka hámarkið á þakinu aftur svo að sem fæstir lendi í vandræðum ásamt því að lengja orlofið sjálft. Hún segir úrræðin eftir níu mánuði oft afar takmörkuð og dýrkeypt þar sem að flestir ungbarnaleikskólar eru fullbókaðir.

Ísland efst á lista yfir jafnrétti

Ísland hefur verið efst á lista yfir lönd með mest jafnrétti í heimi í sex ár og telur Sæunn að fæðingarorlofskerfið spili þar sérstaklega inn. Samkvæmt lögum á það ekki að skipta máli hvort þú ert að ráða karl eða konu í vinnu því þau hafa jafn mikið fæðingarorlof en í raun geta atvinnurekendur nú farið að líta til þess þar sem að karlar taka sér mun styttra orlof. „Þetta er flott kerfi og það verður gríðarlegur missir ef við eyðileggjum það.“

Þegar skoðaðar voru tölur yfir karla og konur sem standa utan atvinnumarkaðsins og þiggja ekki laun frá Fæðingarorlofssjóði sást að hlutfall þeirra lækkaði ekki eins og hjá hinum vegna þess að niðurskurðurinn hafði ekki áhrif á þau. „Af þessu sést að það er klárlega peningurinn sem skiptir máli.“

Auka þarf fjármagn inn í kerfið 

Niðurstaða Sæunnar er því sú að setja þurfi meiri pening inn í fæðingarorlofskerfið. Það sé skiljanlegt að hagræðingarnar hafi verið gerðar í byrjun en þá höfðu þær áhrif á færri en nú. Hún segir að það muni kosta nokkra milljarða að setja peninga inn í kerfið á ný en telur það þess virði.

Í sumar vinnur Sæunn sem blaðamaður hjá Viðskiptablaðinu. Hún hefur áhuga á áframhaldandi námi í hagfræði og félagsfræðirannsóknum. Þá segir hún að áhugavert væri að skoða næst hvað gerist á þeim tíma frá því að fæðingarorlof klárast og þangað til að börn komast inn á leikskóla en hana grunar að það séu frekar mæðurnar sem séu heima þann tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert