Hlutföllin á haus í Hörpu

Kastljósinu var beint að „sjaldséðum fyrirmyndum“ á tónlistarhátíðinni Höfundur óþekktur í Hörpu í kvöld. Fram kemur í tilkynningu frá skipuleggjendum að titillinn er tilvísun í fjöldann allan af vísnakverum og nótnablöðum þar sem höfundur er skráður óþekktur. Þannig hafi þjóð-og mannfræðilegar rannsóknir bent til þess að í lang flestum tilfellum sé um kvenmenn að ræða en ekki hafi þótt mikilvægt að skrásetja þeirra verk á jafns við karlmenn.

Íslenskir kvenhöfundar í tónlist voru í forgrunni í kvöld, en ætlunin var að vekja athygli á því að kvenhöfundar tónlistar hérlendis fá tæplega 10% útgreiddra stefgjalda. Segir í tilkynningunni að hlutföllin séu svipuð um heim allan.

Meðal kvenhöfunda í kvöld voru Hafdís Huld, Björk Guðmundsdóttir, Emilíana Torrini, Ingibjörg Þorbergs, Lára Rúnars, Ólöf Arnalds, Ragnheiður Gröndal, Sóley, Svala Björgvins, Védís Hervör og Þórunn Antonía.

Flytjendur voru hins vegar flestir karlkyns, en þar ber t.d. að nefna Arnór Dan, Björgvin Halldórsson, Bubba Morthens, Friðrik Ómar, Friðrik Dór, Helga Björns, Jón Jónsson, Pál Óskar, Ragga Bjarna og Valdimar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert