„Létu sér nægja að vera skemmtilegar“

Vigdís uppskar mikið lófatak fyrir ræðu sína.
Vigdís uppskar mikið lófatak fyrir ræðu sína. mbl.is/Golli

„Svo afar fátt af því sem okkur finnst sjálfsagt í daglegu lífi hefur komið inn í samfélag okkar eins og regn af himnum ofan, heldur áunnist með óþreytandi elju og framsýni þeirra sem á undan okkur komu,“ sagði Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, í áhrifamikilli ræðu sem hún flutti af svölum Alþingishússins fyrir fullum Austurvelli í dag.

Ræddi hún þar um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, söguna og framtíð jafnréttismála.

Sagði hún daginn í dag vera minningardag allra, karla sem kvenna. Þá sagði hún að dagurinn myndi standa sem fyrirmynd í hugum ótal margra þjóða víða um heim. „Fyrirmynd um jafnrétti karla og kvenna til að kjósa sér þjóðfélagsskipan og landstjórn. Hann mun vissulega fréttast víða í opnum heimi samtíðarinnar,“ sagði Vigdís.

Þá ræddi hún um það sem hefði áunnist í jafnréttismálum undanfarin ár.

„Bæði kyn hafa sömu möguleika og tækifæri til að leita sér menntunar og konur hafa sannarlega nýtt sér það vel.“ Þá rifjaði hún upp að allt fram á 9. áratuginn hefðu aldrei verið fleiri en tvær til þrjár konur á þingi, eins furðulega og það kynni að hljóma.

„Konur áttu frumkvæði að byggingu bæði Landspítalans og Hvítabandsspítalans á Skólavörðustíg. En þær létu sér nægja að sitja í ótryggum sætum á framboðslistum stjórnmálaflokkanna, vera þar skemmtilegar og hjálpa körlunum að komast inn á þing,“ sagði Vigdís.

Sagði hún þó víða langt í land hvað varðar jafnrétti og minntist meðal annars á launamun kynjanna og ofbeldi sem ætti það til að einkenna samskipti kynjanna.

Tvö dýrmæt djásn

Þá beindi hún orðum sínum að ungu fólki. „Það verður ykkar verkefni að gera að heilsteyptum veruleika það samfélag sem stjórnarskrá okkar stendur vörð um. Það kemur í ykkar hlut að byggja samfélag þar sem frelsið og mannréttindin sem okkur hafa verið tryggð gilda fyrir alla.“

Hún rifjaði upp að Íslendingar væru fámenn þjóð í stóru landi og við ættum helst tvö dýrmæt djásn, náttúruna og þjóðtunguna. Hún hvatti unga fólkið til að varðveita og vernda þessi djásn.

Vék hún síðan aftur að mannréttindum. „Mér hefur alltaf þótt svo fallegt og táknrænt að orðið kvenréttindi rímar við orðið mannréttindi. Þá er jafn gott að rifja það upp að allir feður og allir bræður vita að dætur þeirra og systur eru jafn klárar og þeir. En þeir verða líka að hafa það hugfast að þetta á ekki aðeins við um þeirra eigin dætur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert