„Merkisdagur í okkar sögu“

Hátíðarfundur Alþingis.
Hátíðarfundur Alþingis. Árni Sæberg

„Nítjándi júní 1915 er merkisdagur í okkar sögu. Í dag minnumst við þess að eitthundrað ár eru liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Jafnframt er þess að minnast að þennan dag fengu hjú, kaupstaðarborgarar, þurrabúðarmenn og lausamenn sömu réttindi.“

Þetta sagði Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, í upphafi ávarps síns á Alþingi í dag, en þar fer nú fram hátíðarfundur í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Af því tilefni hefur meðal annars málverk af Ingibjörgu H. Bjarnason, fyrstu konunni sem kjörin var til setu á Alþingi, verið fært inn í fundarsal Alþingis.

Í ávarpi sínu sagði Einar K. það aðdáunarvert hversu vel einstaklingar, félagasamtök, skólar, stofnanir og sveitarfélög hafa verið virk í því að minnast þessa dags. „Ég vil fyrir hönd Alþingis færa öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóginn þakkir fyrir þeirra mikla framlag.“

Benti þingforseti á að í lýðræðisríki væri almennur kosningaréttur og kjörgengi, sem nær til allra þjóðfélagsþegna, grundvallaratriði.

„Í þeim skilningi var lýðræði á Íslandi verulegum takmörkunum háð fram til ársins 1915. Kosningaréttur sem konur hlutu 1915 var takmarkaðri réttur en karla og miðaðist í fyrstu við 40 ára aldur en ekki 25 ára aldur eins og hjá körlunum. Það var ekki fyrr en fimm árum síðar með nýrri stjórnarskrá 1920 að sömu reglur giltu um kjörgengi og kosningarétt karla og kvenna. Stjórnarskráin 1920, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, var því í senn mikilvægur þáttur í stjórnskipunarsögu okkar og stórt skref til að tryggja jafnrétti kynjanna,“ sagði Einar K og benti á að baráttan fyrir kjörgengi og kosningarétti íslenskra kvenna hafi staðið yfir í 30 ár.

„Konur eiga að vera mæður“

Á þeim tíma, er barátta íslenskra kvenna stóð yfir, mættu kröfur þeirra ekki alltaf miklum skilningi. „Þetta sjáum við meðal annars í orðum þeirra sem andmæltu því á Alþingi - að veita konum slík réttindi,“ sagði Einar K. og vitnaði til ummæla eins þeirra.

Sá sagði orðrétt: „Ég álít að karlmenn séu miklu færari um að gæta opinberra starfa en kvenfólk. Konur eiga að vera mæður barna sinna og gæta húsmóðurstarfa á heimilinu.“

Einar K. benti á að frá því að fyrsta konan tók sæti á Alþingi, árið 1922, og fram til 1983 höfðu aðeins 12 konur tekið sæti á Alþingi sem aðalmenn. Á sama tíma höfðu hins vegar 278 karlmenn setið á Alþingi sem aðalmenn.

Kvennalistinn braut ísinn

„Í reynd má segja að ísinn hafi ekki verið brotinn fyrr en með framboði Kvennalistans árið 1983. Í dag er Alþingi í 10. sæti yfir þau þjóðþing sem hafa að skipa flestum konum á þingi,“ sagði Einar K. en þær eru nú um 40% þingheims. Fyrir um 20 árum síðar, eða árið 1995, var Alþingi hins vegar nokkuð ofar á þessum lista, eða í 8. sæti.

„Og það þrátt fyrir að mun færri konur væru þá á Alþingi, eða rúmlega 25% þingheims. Þetta dregur fram þá ánægjulegu staðreynd að jákvæð þróun á sér stað í þessum efnum víða um heim,“ sagði Einar K.

Fyrrverandi þingkonum boðið

Í tilefni dagsins hefur fyrrverandi þingkonum, alls 58, sem tekið hafa fast sæti á Alþingi verið boðið til fundarins. Meðal þeirra sem hlýða nú á umræður í þingsal má nefna Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur, biskup Íslands, og Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra.

Að loknu ávarpi þingforseta tóku við umræður um tillögu til þingsályktunar um Jafnréttissjóð Íslands og tóku fulltrúar allra flokka til máls. Var tillagan samþykkt og flytur nú Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ávarp.

Meðal viðstaddra eru Vigdís Finnbogadóttir og Agnes M. Sigurðardóttir.
Meðal viðstaddra eru Vigdís Finnbogadóttir og Agnes M. Sigurðardóttir. Árni Sæberg
Fjölmargir hlýða á umræður.
Fjölmargir hlýða á umræður. Árni Sæberg
Kvennakór tók nokkur lög.
Kvennakór tók nokkur lög. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka