Spennan mun losna úr læðingi

Jarðskjálfti af stærð 4 reið yfir við Kleifarvatn í lok …
Jarðskjálfti af stærð 4 reið yfir við Kleifarvatn í lok maí. Síðan bendir ýmislegt til óstöðugleika á svæðinu. mbl.is/Rax

Ekki er öruggt að stór jarðskjálfti verði þó að aukin skjálftavirkni og óstöðugleiki sé á Reykjanesskaga segir Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðskjálftavár hjá Veðurstofu Íslands. Spennan þar muni þó losna úr læðingi en ómögulegt sé að spá fyrir um hvar eða hvenær.

Almannavarnir sendu frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem fram kemur að aukin jarðskjálftavirkni hafi verið á Reykjanesskaganum undanfarið en þar reið meðal annars skjálfti af stærð 4 yfir í lok maí. Í framhaldi slíks atburðar getur spennuástand í jarðskorpunni orðið óstöðugra á stærra svæði í kring. Greining á smáskjálftum bendi til þess að slíkur óstöðugleiki geti verið til staðar allt frá Kleifarvatni og austur í Ölfus. Mælingar á jarðskorpuhreyfingum síðustu árin gefi einnig vísbendingar um að á þessu svæði sé mögulega talsverð spenna sem geti losnað út í stærri skjálftum. 

Kristín segir að ómögulegt sé fyrir sérfræðinga að segja fyrir um hvenær eða hvar jarðskjálfti á Suðurlandsskjálftabeltinu gæti riðið yfir. Af sögulegum upplýsingum sé hins vegar hægt að ætla að hámarksstærð slíks skjálfta gæti verið um 6,5.

„Það kom þarna skjálfti í Kleifarvatn upp á fjóra í lok maí. Greining á smáskjálftavirkni eftir þennan skjálfta bendir til að það sé enn óstöðugleiki á svæðinu sem gæti bent til þess að það séu meiri líkur á öðrum skjálfta, jafnvel stærri,“ segir hún.

Tækifæri til að skoða viðbúnað við skjálfta

Á meðan jarðskjálftavirkni sé ekki skilin betur en þetta sé ákveðið að miðla upplýsingum um óstöðugleikann á tilteknu svæði.

„Við erum að reyna að miðla þessum upplýsingum. Því miður getum við ekki sagt meira en þetta. Þetta er ágætistækifæri til að skoða hvernig við sjálf erum í stakk búin að takast á við svona skjálfta því það munu koma skjálftar þarna einhvern tímann. Það er allavegana alveg ljóst. Spennan hleðst þarna upp og hún leysist alltaf úr læðingi reglulega,“ segir Kristín.

Í tilkynningu almannavarna kom fram að búast megi við því að áhrif skjálfta af þessari stærðargráðu í nálægum byggðum, höfuðborgarsvæðinu, Grindavík, Þorlákshöfn, Hveragerði og Reykjanesbæ, verði þannig að allir finni jarðskjálftann, margir verði skelkaðir og jafnvel hlaupi út úr húsum. Þung húsgögn gætu hreyfst og múrhúðun sprungið af veggjum á stöku stað. Annars sé ekki búist við miklu tjóni á vel byggðum húsum.

Fyrri frétt mbl.is: Aukin jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert