Spennan mun losna úr læðingi

Jarðskjálfti af stærð 4 reið yfir við Kleifarvatn í lok …
Jarðskjálfti af stærð 4 reið yfir við Kleifarvatn í lok maí. Síðan bendir ýmislegt til óstöðugleika á svæðinu. mbl.is/Rax

Ekki er ör­uggt að stór jarðskjálfti verði þó að auk­in skjálfta­virkni og óstöðug­leiki sé á Reykja­nesskaga seg­ir Krist­ín Jóns­dótt­ir, fag­stjóri jarðskjálfta­vár hjá Veður­stofu Íslands. Spenn­an þar muni þó losna úr læðingi en ómögu­legt sé að spá fyr­ir um hvar eða hvenær.

Al­manna­varn­ir sendu frá sér til­kynn­ingu fyrr í dag þar sem fram kem­ur að auk­in jarðskjálfta­virkni hafi verið á Reykja­nesskag­an­um und­an­farið en þar reið meðal ann­ars skjálfti af stærð 4 yfir í lok maí. Í fram­haldi slíks at­b­urðar get­ur spennu­ástand í jarðskorp­unni orðið óstöðugra á stærra svæði í kring. Grein­ing á smá­skjálft­um bendi til þess að slík­ur óstöðug­leiki geti verið til staðar allt frá Kleif­ar­vatni og aust­ur í Ölfus. Mæl­ing­ar á jarðskorpu­hreyf­ing­um síðustu árin gefi einnig vís­bend­ing­ar um að á þessu svæði sé mögu­lega tals­verð spenna sem geti losnað út í stærri skjálft­um. 

Krist­ín seg­ir að ómögu­legt sé fyr­ir sér­fræðinga að segja fyr­ir um hvenær eða hvar jarðskjálfti á Suður­lands­skjálfta­belt­inu gæti riðið yfir. Af sögu­leg­um upp­lýs­ing­um sé hins veg­ar hægt að ætla að há­marks­stærð slíks skjálfta gæti verið um 6,5.

„Það kom þarna skjálfti í Kleif­ar­vatn upp á fjóra í lok maí. Grein­ing á smá­skjálfta­virkni eft­ir þenn­an skjálfta bend­ir til að það sé enn óstöðug­leiki á svæðinu sem gæti bent til þess að það séu meiri lík­ur á öðrum skjálfta, jafn­vel stærri,“ seg­ir hún.

Tæki­færi til að skoða viðbúnað við skjálfta

Á meðan jarðskjálfta­virkni sé ekki skil­in bet­ur en þetta sé ákveðið að miðla upp­lýs­ing­um um óstöðug­leik­ann á til­teknu svæði.

„Við erum að reyna að miðla þess­um upp­lýs­ing­um. Því miður get­um við ekki sagt meira en þetta. Þetta er ágætis­tæki­færi til að skoða hvernig við sjálf erum í stakk búin að tak­ast á við svona skjálfta því það munu koma skjálft­ar þarna ein­hvern tím­ann. Það er alla­veg­ana al­veg ljóst. Spenn­an hleðst þarna upp og hún leys­ist alltaf úr læðingi reglu­lega,“ seg­ir Krist­ín.

Í til­kynn­ingu al­manna­varna kom fram að bú­ast megi við því að áhrif skjálfta af þess­ari stærðargráðu í ná­læg­um byggðum, höfuðborg­ar­svæðinu, Grinda­vík, Þor­láks­höfn, Hvera­gerði og Reykja­nes­bæ, verði þannig að all­ir finni jarðskjálft­ann, marg­ir verði skelkaðir og jafn­vel hlaupi út úr hús­um. Þung hús­gögn gætu hreyfst og múr­húðun sprungið af veggj­um á stöku stað. Ann­ars sé ekki bú­ist við miklu tjóni á vel byggðum hús­um.

Fyrri frétt mbl.is: Auk­in jarðskjálfta­virkni á Reykja­nesskaga 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert