Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, segir í samtali við mbl.is að margir hjúkrunarfræðingar hafi sagt upp störfum síðustu daga. „125 hafa sagt upp. Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar frá því klukkan hálf tvö í gær enda höfum ekki mannskap til að safna því saman.“
Hún segist reikna með að fá nýjar tölur á mánudaginn. „Þá náum við því sem kom inn í gær. Mér þykir ekki ólíklegt að tölurnar verði þá aðeins hærri miðað við það sem maður hefur heyrt.“
Aðspurð segir hún ekki að uppsagnirnar komi flestar frá einhverri ákveðinni deild. „Það er bara mjög víða og við höfum heyrt fréttir af nokkrum deildum. Gjörgæslunum, hjarta og skurðdeildinni og krabbameinsdeildum en það er bara mjög víða.“
Sigríður vonast til að samningar náist fljótlega. „Við bindum vonir við það að það náist samningar sem að fólk er sátt við og það dragi uppsagnir til baka. Reynslan hefur verið sú að þegar það hafa verið svona uppsagnir þá missum við alltaf fólk og það er mikið áhyggjuefni.“
Hún segir framboð af hjúkrunarfræðingum er takmarkað hér á landi. „Við sáum fram á að það yrðu margar deildir undirmannaðar í sumar og við hefðum þurft að treysta á að reka margar þeirra með yfirvinnu eins og við þurfum oft að gera á sumrin. Það er líka áhyggjuefni því við vitum ekki hversu viljugt fólk er að bæta við sig umfram sína venjulegu vinnuskyldu. Það er ekkert gott í stöðunni.“