Úr hjólastól í flugstól

Arna Sigríður brosir breitt í háloftunum í traustum höndum Samúels.
Arna Sigríður brosir breitt í háloftunum í traustum höndum Samúels. Ljósmynd/True Adventure

Upphaf sögunnar um flugstólinn íslenska má rekja til hugmyndar Brands Bjarnasonar Karlssonar þegar hann sá frönsku myndina Intouchables, en í henni fer lamaður maður í svifvængjaflug. Brandur, sem er lamaður fyrir neðan háls, kom að máli við Gísla Steinar Jóhannesson og úr varð að hanna og smíða flugstól. Gísli og Samúel Alexandersson reka fyrirtækið True Adventure, en þeir fljúga um loftin blá með ferðamenn sem upplifa íslenska fegurð eins og fuglinn fljúgandi. Hugmyndin um stólinn varð að veruleika með hjálp margra en hann er hannaður af Hafsteini Jónassyni og smíðaður í samstarfi við stoðtækjafyrirtækið Össur. Stóllinn var fyrst prófaður nú í lok maí og fengu þá Brandur Bjarnason Karlsson og Arnar Helgi Lárusson að prófa, en Arnar er einnig lamaður.

Beðið eftir rétta vindinum

Næst kom röðin að kvenpeningnum og varð Arna Sigríður Albertsdóttir fyrir valinu. Þegar Arna heyrði fyrst af flugstólnum í fyrra varð hún spennt að prófa. Hún var ekki lengi að hugsa sig um þegar henni var boðið í flug nú fyrir skemmstu. Hún keyrði einn fallegan laugardag til Víkur í Mýrdal til að „stökkva“ fram af fjalli í svifvæng og varð ekki fyrir vonbrigðum. Bíða þurfti allan daginn eftir rétta vindinum og hafði Arna langan tíma til að hugsa um flugið. „Ég hélt ég yrði meira stressuð en kannski veit ég bara ekkert hvað ég er að fara út í,“ segir Arna fyrir flug og hlær. Gísli Steinar rekur höfuðið inn um bílgluggann hjá okkur. „Ég held við hinkrum bara, það koma góðir hvellir inn á milli,“ segir hann og við kinkum kolli eins og við vitum hvað það þýðir. Vindáttin virðist sífellt vera að breytast og við bíðum öll spennt. Samúel er á „refresh“ takkanum á vedur.is og allt er til reiðu, nema hagstæður vindur. Fyllsta öryggis er að sjálfsögðu gætt og er veðrið og vindurinn stærsti áhrifavaldurinn í svifvængjaflugi.

Stefnan sett á Ólympíuleikana

Arna, sem er 25 ára, slasaðist í skíðaslysi þegar hún var sextán ára og lamaðist fyrir neðan brjóst. Hún hefur ekki setið auðum höndum síðan þar sem hún æfir handahjólreiðar af miklu kappi og stefnir hún á Ólympíuleikana í Ríó í Brasilíu árið 2016. Einnig stundar hún skíðaíþróttina í sérútbúnum stól á veturna og hefur æft handbolta og körfubolta. Arna er mjög ánægð með framtak strákanna. „Mér finnst þetta frábært, það er svo lítið af útivist og sporti á Íslandi fyrir fólk í minni stöðu sem þarf að nota hjólastól,“ segir hún, en átta ár eru síðan hún lenti í slysinu örlagaríka. Hún hefur alltaf verið mikil keppnismanneskja, en hún æfði skíði fyrir slysið. Nú eiga handahjólreiðarnar hug hennar allan og æfir hún tvisvar á dag. Hún segir þessa íþrótt njóta vaxandi vinsælda meðal fólks í hjólastólum í heiminum. Vegalengdin sem hún keppir í er 15 til 25 kílómetrar. Hún vinnur nú hörðum höndum að því að ná nógu mörgum stigum til að mega keppa á Ólympíuleikunum.

Senda bréf til Sameinuðu þjóðanna

Arna Sigríður hefur starfað með átakinu „Stattu með taugakerfinu“, en tilgangur verkefnisins er að semja bréf til að senda aðalritara Sameinuðu Þjóðanna um að setja sem þróunarmarkmið að skoða taugakerfið. Til þess hafa þau safnað undirskriftum landsmanna en það þarf vissan fjölda til að hægt sé að senda bréfið. „Við mænuskaða er engin lækning enn til en tilgangurinn er að búa til einn góðan gagnabanka um mænuskaða. Ef við tökum krabbamein sem dæmi, þá eru til lyf við því og mörg lyfjafyrirtæki sjá sér hag í að búa þau til og fá pening til rannsókna. En við mænuskaða er líklegra að lækning felist í einhvers konar aðgerð og þarf því að finna upp nýja tækni. Lyfjafyrirtækin græða lítið á því og þá er erfiðara að fá fjármagn til rannsókna og það vantar,“ segir Arna.

„Þetta var geðveikt“

Dagurinn leið og enn var beðið eftir hagstæðum vindum. Þegar líða tók á kvöldið kom loks tækifærið. Allt var sett í gang, fólk og búnaður keyrt upp á Reynisfjall og hafist handa við að koma Örnu fram af brúninni. Útsýnið var stórkostlegt til allra átta, við blöstu Reynisdrangar og Dyrhólaey á þessu fallega júníkvöldi. Arna sat ein hugsi á svip en sagðist ekki vera svo stressuð. Hún var færð úr hjólastólnum og í flugstólinn þar sem hún var fest og pökkuð inn. Samúel fékk þann heiður að vera flugmaðurinn og Gísli hljóp með til að lyfta stólnum. Á örskotstundu voru þau komin í loftið og svifu ljúflega fram af bjargbrúinni. Svifið var yfir Vík í nokkrar mínútur og lent á fótboltavelli. Lendingin var mjúk. „Ég átti von á miklu verra, hélt ég myndi fá högg á mig en það var ekki,“ segir hún. Þegar Arna er spurð um flugið, svarar hún: „Þetta var geðveikt. Ég var smá lofthrædd en ekkert mikið. Ég myndi sko algerlega mæla með þessu,“ segir hún og bætir við: „það var sko alveg þess virði að bíða allan daginn eftir þessu, ég skildi það ekki í dag en skil það núna,“ segir Arna hæstánægð með flugið. Hún á boð í annað flug á næstu vikum og ætlar að nýta sér það. Samúel segir að flugið hafi gengið vel. „Þetta var bara æðislegt, reyndar of stutt en það var ekki mikill vindur. Við erum gjörsamlega háðir veðrinu. Það er alltaf svo stórkostleg upplifun að fara í fyrsta skipti fram af kletti og ég lifi mig svo í gegnum þetta,“ segir Samúel.

Gísli Steinar, Arna og Samúel voru alsæk að flugi loknu.
Gísli Steinar, Arna og Samúel voru alsæk að flugi loknu. mbl.is/Ásdís
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert