Þingið í „óvissuferð“ í þrjár vikur

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert

Þingmenn stjórnarandstöðunnar stigu hver á fætur öðrum í pontu í upphafi þingfundar á Alþingi í dag og kölluðu eftir því að lögð yrði fram starfsáætlun fyrir sumarþingið. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði að þingið hefði verið í „óvissuferð“ í þrjár vikur.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði að það hlyti að vera lágmarkskrafa að ríkisstjórnin í landinu gerði upp svið sig hvaða mál eigi að vera í forgangi í sumar. Þingmenn gætu starfað fram í september, en tíma starfsmanna Alþingis, sem þyrftu á því að halda ða komast í lögbundið sumarleyfi, væri illa varið.

Svandís Svavarsdóttir, þingkona Vinstri grænna, benti á að þingið hefði nú starfað án starfsáætlunar í þrjár vikur. Enginn áhugi hefði verið fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að leggja fram slíka áætlun. „Hér er engin verkstjórn, hér er engin yfirsjón yfir það hver forgangsmálin eru, hvað eigi að vera afgreitt á þessu þingi,“ sagði hún.

Það væri brýnt að fá fram starfsáæltun, einnig þannig að þingmenn gætu sinnt aðhaldshlutverki sínu gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Katrín sagði að þessi „óvissuferð“ væri farin að hafa áhrif á starfsanda hér á þinginu. Það væri mjög mikilvægt að lausn næðist um það hvernig málum yrði hagað í sumar. „Það er eðlileg krafa að við fáum starfsáætlun fyrir sumarþing.“

Bjarni Benediksston, fjármálaráðherra, sagði að málið væri nú ekki svona einfalt. Ekki væri hægt að horfa fram hjá því að átök hefðu verið á þinginu. Stjórnarandstaðan hefði til að mynda misnotað dagskrárliði á borð við fundarstjórn foresta umliðnar vikur og mánuði og stillt meirihlutanum upp við vegg.

„Það eru takmörk fyrir því í hversu mörgum málum stjórnarandstaðan getur stillt meirihlutanum upp við vegg,“ sagði Bjarni. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu stundað málþóf og sagt við stjórnarmeirihlutann: Þið fáið ekki að afgreiða þetta mál og hitt. „Það eru skilaboðin sem hún kemur með og auðvitað geta menn ekki beygt sig undir það,“ sagði Bjarni. Hann benti á að meirihlutavilji lægi fyrir í einstökum málum á þinginu.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert