Ekkert nýtt kom fram á fundi BHM og samninganefndar ríkisins í Karphúsinu í dag, en hann hófst klukkan þrjú og lauk stuttu síðar. Páll Halldórsson, formaður samninganefndar félagsins, segist ekki telja líklegt að ríkið muni koma fram með nýjar tillögur fram að mánaðarmótum, en þá fer málið fyrir gerðardóm.
Páll segir að á fundi samninganefndar BHM í morgun hafi verið farið í gegnum stöðuna og menn hafi verið sammála um að kvika ekki frá þeirri kröfu sinni að menntun skuli metin til launa. „Það eru alltaf að koma fram sterkari og sterkari gögn um að menntun væri illa metin til launa hér á landi,“ segir Páll og bætir við að BHM hafi enda brugðist við útspili ríkisins þegar lög voru sett á verkfallið með málsókn.
Segir hann að staðan sé einföld frá bæjardyrum BHM. „Það voru sett á okkur lög og samningsforsendur ríkisins gerðar að forsendum fyrir gerðardóm,“ segir Páll. Hann segir að félagið muni ekki fara samningsleiðina með ríkinu miðað við núverandi stöðu og á þeim forsendum sem ríkið sé að setja fram. „Það á samt aldrei að segja aldrei,“ segir hann aðspurður hvort málið sé þá í pattstöðu fram til mánaðarmóta og bætir við að félagið hafi alltaf verið opið fyrir því að setjast niður aftur ef eitthvað nýtt samningsboð sé lagt fram. Hann er þó ekki bjartsýnn á að svo verði.