Hálfrar aldar draumur tveggja vina verður að veruleika á morgun þegar hringferð þeirra hefst klukkan 10. Þeir kalla sig Vini Ferguson og fara hringinn í kringum landið á tveimur Massey Ferguson traktorum. Annar þeirra var traktorinn sem þeir unnu á í sveitinni fyrir fimmtíu árum.
Félagarnir ætla að leggja góðu málefni lið og safna fyrir Vináttu – forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti. Þeir leggja af stað frá Olísstöðinni í Álfheimum og áætlað er að ferðin taki 12-14 daga, að því er segir í tilkynningu.
Þeir Karl Friðriksson, framkvæmdastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, og Grétar Gústavsson, meistari í bifvélavirkjun og áhugamaður um búvélar og fornbíla, voru saman í sveit á bænum Valdarási frá fimm ára aldri fram á unglingsár og unnu ýmis sveitastörf. Draumurinn kviknaði þegar þeir þeir byrjuðu að vinna á traktornum, sem verður annar fararskjótinn þeirra í ferðinni.
„Það kom aldrei til greina annað en að fara á traktornum okkar, þeim sem við lékum okkur í og unnum á í sveitinni. Massey Ferguson, tegund 35X, árgerð 1963 Enda hefur þessi draumur blundað í okkur í 50 ár og við erum sammála um að maður eigi að láta góða drauma rætast,“ er haft eftir Karli.
„Fyrstu árin vorum við látnir sækja kýr, raka frá og og rifja. Áður en við náðum niður á kúplinguna á traktornum vorum við nýttir til að vinna hin ýmsu störf á þeim. Grétar var nú alltaf meiri vélamaður en ég og var fyrri til. En við náðum vel saman við að vinna á traktorunum og nýta þá okkur til skemmtunar,” segir Karl ennfremur.
„Okkur var auðvitað sýnd mikil ábyrgð og leyfðist að ferðast um á vélunum milli bæja og svo notuðum við traktorana okkur til skemmtunar þegar tími gafst til,” segir Grétar í tilkynninguni.
Félagarnir ákváðu að nota tækifærið og leggja góðu málefni lið um leið og þeir létu gamlan draum rætast. Þeir safna áheitum í gegnum símanúmerið 904 1900, fyrir 500 krónur, en ágóðinn rennur til Vináttu – forvarnarverkefnis Barnaheilla gegn einelti í leikskólum. Þangað á einelti gjarnan rætur að rekja og mikilvægt að hefja forvarnir strax þá.
„Við vonum auðvitað að sem flestir hvetji okkur áfram með því að hringja í söfnunarsímanúmerið eða leggja inn á bankareikning Barnaheilla, því samtökin vinna að mörgum þörfum verkefnum í þágu allra barna á Íslandi,“ segir Grétar ennfremur.
Hægt er að hringja eða senda sms í síma 904 1900 (500 kr.) með textanum: Vinátta – einnig má leggja inn á bankareikning Barnaheilla 0334-26-4521, kt. 521089-1059.
Stöðvað verður á öllum Olísstöðvum á leiðinni þar sem fólk fær að skoða vélar og ökumenn.
Hér má sjá áætlaða dagskrá Vinanna:
Dagur 1. 25.júní – Keyrt verður úr Álfheimunum norður yfir heiðar í Húnaþing. Stoppað í Borgarnesi og að Baulu. Síðasti viðkomustaður fyrsta daginn verður á Laugarbakka.
Dagur 2. 26. júní – Frídagur.
Dagur 3. 27. júní - Ekið að Sauðárkróki um Þverfjall. Komið við á Blönduósi og Skagaströnd.
Dagur 4. 28. júní - Ekið til Siglufjarðar frá Sauðarkróki.
Dagur 5. 29. júní - Farið verður frá Siglufirði til Akureyrar og komið við á Ólafsfirði og Dalvík – gæti verið 30. júní.
Dagur 6. 30. júní - Ekið að Mývatni.
Dagur 7. 1. júlí - Frídagur.
Dagur 8. 2. júlí - Farið frá Mývatni að Fellabæ.
Dagur 9. 3. júlí - Ekið frá Egilsstöðum niður á Reyðarfjörð.
Dagur 10. 4. júlí - Ekið frá Reyðarfirði til Hafnar.
Dagur 11. 5. júlí - Farið frá Höfn að Skaftafelli.
Dagur 12. 6. júlí - Frá Skaftafelli er síðan ekið að Kirkjubæjarklaustri.
Dagur 13. 7. júlí - Ekið að Hellu.
Dagur 14. 8. júlí - Farið frá Hellu og förinni lýkur við Olísstöðina á Norðlingaholti.