Þjónustan hefur skilað 4 kærum

Sigrún Jóhannsdóttir héraðsdómslögmaður, býður þolendum kynferðisofbeldis ráðgjöf og þjónustu þeim …
Sigrún Jóhannsdóttir héraðsdómslögmaður, býður þolendum kynferðisofbeldis ráðgjöf og þjónustu þeim að kostnaðarlausu. ljósmynd/Úr einkasafni

„Þetta er búið að ganga ótrúlega vel og ég er virkilega þakklát fyrir jákvæðu viðbrögðin. Nú þegar eru farnar af stað fjórar kærur,“ segir Sigrún Jó­hanns­dótt­ir héraðsdóms­lögmaður, sem nýlega fór að bjóða þolend­um kyn­ferðisof­beld­is ráðgjöf og þjón­ustu þeim að kostnaðarlausu.

Eins og mbl.is fjallaði um í síðustu viku hefur Sigrún, sem rek­ur lög­manns­stof­una Lög­vís, starfað sem rétt­ar­gæslumaður brotaþola í refsi­mál­um und­an­far­in ár. Hafði hún lengi ætlað sér að setja á stokk þjónustu af þessu tagi, en bylt­ing­in sem hef­ur átt sér stað á sam­fé­lags­miðlum síðustu vik­ur kom hugmyndinni end­an­lega í fram­kvæmd.

Sjá einnig: Veitir þolendum fría ráðgjöf

„Flestir sem hafa leitað til mín eru með nokkurra ára gömul mál, eða jafnvel eldri. Þeir hafa verið að velta því fyrir sér í langan tíma hvort þeir eigi að kæra eða ekki,“ segir Sigrún en tugur kvenna hefur leitað til hennar frá því í síðustu viku til að fá aðstoð í lagalega ferlinu.

Öll málin eru að minnsta kosti árs gömul að sögn Sigrúnar og það elsta hátt í 30 ára gamalt. „Þessum konum leið eins og þær þyrftu að koma málunum frá sér til lögreglu, þá hefðu þær gert allt sitt. Elsta málið er fyrnt en sá brotaþoli vildi samt sem áður kæra brotið, þannig að það væri komið á skrá hjá lögreglu. En slíkt getur, og hefur, stutt kærur sem síðar koma upp á hendur sama gerandann,“ segir Sigrún og bætir við að nú líði þessum konum eins og þær geti loks lokað ákveðnum kafla í sínu lífi.

Kostar ekkert að kæra

Í þjón­ust­unni felst ráðgjöf, hvort sem brotaþoli ákveður að kæra eða ekki. Kjósi hann að kæra sér Sigrún um að til­kynna brotið til lög­reglu og fá tíma í skýrslu­töku. Þá fer hún í gegn­um ferlið með brotaþola og er í kjöl­farið til­nefnd sem rétt­ar­gæslumaður. Sá kostnaður sem kann að falla til vegna málsins er þá greiddur úr ríkissjóði og á meðan málið er til meðferðar getur brotaþoli verið öruggur um að enginn kostnaður muni falla á hann að sögn Sigrúnar.

Sigrún segir að í flestum tilvikum hafi brotaþoli litla þekkingu á því ferli sem fer af stað sé brotið kært. „Sumar héldu það væri kostnaðarsamt, en það kostar auðvitað ekki neitt að kæra“, segir hún og bætir því við að hún leggi upp með það að brotaþolar fái sjálfir að ráða ferðinni, og þannig sé ekki þrýst á neinn að kæra. Enda misjafnt hvor leiðin sé hagsmunum brotaþola fyrir bestu.

Sigrún bætir því við að hún leggi einnig áherslu að skjólstæðingar hennar fái sálfræðiaðstoð. „Það er því miður kostnaðarsamt að fara til sálfræðings í dag, en ég ég tel það grundvallaratriði að brotaþolar geti notið slíkrar þjónustu. Sem betur fer eru ýmsar leiðir færar, neyðarmóttakan er með sálfræðinga á sínum snærum sem sinna brotaþolum, sem koma þar í gegn, þeim að kostnaðarlausu, og félagsþjónustan greiðir í einhverjum tilvika fyrir nokkra sálfræðitíma. Ég er sjálf með sálfræðing sem ég hef beint brotaþolum til, en mér finnst skipta öllu máli að þeir sálfræðingar sem sinna þessari vinnu hafi þekkingu á kynferðisbrotum og afleiðingum þeirra.“

Ljóst að úrbóta sé þörf

Sigrún segir þó ljóst að úrbóta sé þörf á þessu sviði. „Ef við horfum bara í fjárhagslegu hliðina þá fyndist mér ekkert ólíklegt að það væri samfélagslega hagstæðara að greiða niður sálfræðitíma fyrir alla brotaþola – en ekki bara þá sem leita í gegnum Neyðarmóttökuna. En það er að mínu mati gróft misrétti, þ.e. að það skipti höfuðmáli hvort einstaklingur kæri brotið beint til lögreglu eða fari í gegnum Neyðarmóttökuna,“ segir hún og heldur áfram:

„Að vinna úr kynferðisofbeldi er stórt verkefni og því lengur sem brotaþoli er einn með áfallinu því meira nær það að fléttast inn í alla anga lífs þess. Margir eiga ekki afturkvæmt á vinnumarkaðinn vegna andlegra afleiðinga og þá erum við strax að horfa í mun meiri kostnað en við hefðum í upphafi gert vegna sálfræðiþjónustunnar. Það væri til dæmis forvitnilegt að vitað hvað vinna Stígamóta og annarra grasrótarsamtaka hafa sparað ríkinu hvað þetta varðar.“

Vantrú á frásögn brotaþola oft erfiðari en brotið

Þá segir hún afar mikilvægt að brotaþolar fái stuðning í gegnum ferlið. „Mér finnst hræðilegt til þess að hugsa að brotaþolar fari einir í gegnum kæruferlið, sem getur tekið upp undir tvö ár að ljúka. Á þeim tíma hvílir það þungt á brotaþolum og sé gerandinn innan fjölskyldunnar þá er álagið enn meira, jafnvel skaðlegt brotaþola. Þögnin er oft mikil og stundum getur verið þægilegra að gefa sér að brotaþoli sé að ljúga, ýkja atburðinn eða jafnvel upplifa hann á rangan hátt, heldur en að horfast í augu við að einhver sem þú elskir sé fær um slíkt ofbeldi.“

Þá segir hún staðreyndina vera þá að stór hluti gerenda séu einstaklingar sem erfitt geti reynst að trúa að séu færir um nauðgun eða ofbeldi. „Þetta geta verið menn eða konur sem þú elskar, finnst skemmtileg, sjarmerandi og þú vilt hafa í lífi þínu. Þá er þægilegra að núlla út reynslu brotaþola, sem oftar en ekki eru í mjög slæmu andlegu ástandi – vegna ofbeldisins. Ég held það sé bara mannlegt. En slík viðbrögð meiða, oft meira en brotið sjálft,“ segir Sigrún.

Langar að bæta stöðu brotaþola

Sigrún segir það afar mik­il­vægt að rétt­ar­gæslu­menn þekki kyn­ferðis­brot og af­leiðing­ar þeirra og viti hvernig um­gang­ast eigi ein­stak­linga sem hafa lent í slík­um brot­um. Það geti skipt miklu máli hvaða orð eru sögð enda sé réttargæslumaður andlit kerfisins gagnvart brotaþola.

Hún seg­ir margt hafa breyst til hins betra á stutt­um tíma þó enn megi margt bet­ur fara. „Réttargæslumenn eru mismunandi og upplýsingaflæði á milli lögreglu og brotaþola í gegnum réttargæslumann er mismunandi,“ segir Sigrún og bendir á að réttargæslumenn fái fáa tíma greidda og þar af leiðandi sé ekki gert ráð fyrir miklum samskiptum á milli þeirra og brotaþola. 

Seg­ist hún hafa ýms­ar fleiri hug­mynd­ir sem hana langi að hrinda í fram­kvæmd varðandi bætta stöðu brotaþola, en þetta séu fyrstu skrefin. „Maður hefur öðlast þekkingu sem manni langar að koma á framfæri og nota til að breyta til hins betra. En þjónustan er nú til staðar og hingað til hefur eftirspurnin verið með mikil. Þannig að það er augljóst að þörfin fyrir þessa þjónustu er til staðar.“

Sigrún leggur mikla áherslu á að þolendur fái sálfræðiaðstoð til …
Sigrún leggur mikla áherslu á að þolendur fái sálfræðiaðstoð til að vinna úr ofbeldinu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Erfitt getur reynst þolendum að fara í gegnum hið lagalega …
Erfitt getur reynst þolendum að fara í gegnum hið lagalega ferli. mbl.is
Sigrún segir stóran hluta gerenda vera einstaklinga sem erfitt geti …
Sigrún segir stóran hluta gerenda vera einstaklinga sem erfitt geti reynst að trúa að séu færir um nauðgun eða ofbeldi. mbl.is/G.Rúnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert