„Veruleg“ þekking á Exista

Frá aðalmeðferð í SPRON-málinu.
Frá aðalmeðferð í SPRON-málinu. mbl.is/Styrmir Kári

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í SPRON-málinu svonefnda segir að ekkert hafi komið fram sem styðji það ákæruatriði að hinir ákærðu, fyrrverandi stjórnarmenn SPRON, hafi látið hjá líða að afla upplýsinga um greiðslugetu og eignastöðu Exista eða kynna sér slíkar upplýsingar.

Þvert á móti bendi flest til hins gagnstæða, að stjórnin hafi byggt ákvörðun sína á nýjustu upplýsingum um félagið sem tiltækar voru.

Eins og kunnugt er sýknaði héraðsdómur í morgun alla sem ákærðir voru í málinu.

Fjór­ir fyrr­ver­andi stjórn­ar­menn SPRON, þau Ari Berg­mann Ein­ars­son, Jó­hann Ásgeir Baldurs, Mar­grét Guðmunds­dótt­ir og Rann­veig Rist, sem og fyrr­ver­andi sparis­sjóðstjóri SPRON, Guðmund­ur Örn Hauks­son, voru ákærðir í mál­inu fyr­ir umboðssvik.

Sérstakur saksóknari taldi að þau hefðu misnotað aðstöðu sína og stefnt fé sparisjóðsins í verulega hættu þegar þau samþykktu á stjórnarfundi þann 30. september 2008 að veita Exista tveggja milljarða króna peningamarkaðslán án trygginga og án þess að leggja mat á greiðslu­getu og eigna­stöðu Exista í sam­ræmi við út­lána­regl­ur.

Upplýsingarnar áreiðanlegar

Dómurinn taldi sannað að fyrir stjórnarfundinum 30. september hefði legið síðasta árshlutauppgjör Exista og að á fundinum hefði verið farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu sem skiptu máli um lánshæfi fyrirtækisins.

„Fyrir liggur að Exista hf. var fyrirtæki sem skráð var á markað og bar upplýsingaskyldu sem slíkt. Þá liggur einnig fyrir að Exista hf. hafði fyrr á sama ári fengið peningamarkaðslán hjá SPRON og þannig verið metið hæft til að eiga í slíkum viðskiptum við sparisjóðinn. Að síðustu lá fyrir að innan sparisjóðsins var fyrir hendi veruleg þekking á málefnum fyrirtækisins og þróun þess.

Höfðu hinir ákærðu stjórnarmenn því réttmæta ástæðu til að ætla að þær upplýsingar sem starfsmenn sparisjóðsins veittu þeim væru fullnægjandi og traustar,“ segir í dómnum.

Þá bendir dómurinn einnig á að þótt fyrir hafi legið að markaðsvirði Exista hefði lækkað umtalsvert mánuðina á undan hafi stjórnin engu að síður mátt ætla að fyrirliggjandi upplýsingar væru í meginatriðum áreiðanlegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert