Endurupptökunefnd hefur samþykkt að mál Sigurðar Guðmundssonar verði tekið aftur upp og réttað á ný í því. Sigurður var dæmdur í 18 mánaða fangelsi árið 2003 fyrir að valda dauða níu mánaða gamals barns með því að hrista það.
Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Í viðtali við RÚV sagði Sigurður að málið hefði haft gífurleg áhrif á líf hans. Hann hlaut átján mánaða dóm og varð fyrir slysi í fangelsinu sem hann hefur þurft að takast á við síðan þá. Eins hafi málið leitt af sér hjónaskilnað og fjárhagserfiðleika.
Dr. Waney Squier, tauga- og meinafræðingur við John Radcliffe-sjúkrahúsið í Oxford, gaf skýrslu fyrir héraðsdómi í lok seinasta árs þar sem hann taldi frekari rannsóknir hafa þurft til að skera úr um dánarorsökina og að ýmislegt í sjúkrasögu barnsins gæti skýrt dauða þess.
Sigurður var dæmdur fyrir manndráp af gáleysi með því að hafa með hristingi eða öðrum hætti valdið dauða níu mánaða gamals drengs sem hann hafði í daggæslu í Kópavogi í maí árið 2001. Það var mikil mildun á dómi Héraðsdóms Reykjaness sem hafði dæmt hann í þriggja ára fangelsi. Hæstiréttur féllst á niðurstöðu héraðsdóms um að áverkar drengsins hefðu samsvarað svonefndu „shaken-baby syndrome“ sem nefnt hefur verið barnahristingur á íslensku.
Frétt mbl.is: Efast um barnahristingsdóm