Stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings, sem dæmt var í í dag, er mjög umfangsmikið og flókið mál þar sem ákært var fyrir bæði markaðsmisnotkun og umboðssvik í þremur ákæruköflum, hver með nokkra undirliði. Þá er dómur héraðsdóms tæplega hundrað blaðsíður og því ekki skrítið málið flækist fyrir fólki. Mbl.is tekur hér saman fyrir hvað hver og einn var ákærður og dæmdur í málinu.
Þeir sem ákærðir voru í málinu voru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri bankans, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings, Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson, starfsmenn eigin viðskipta, Bjarki Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána Kaupþings og Björk Þórarinsdóttir, fyrrverandi lánafulltrúi í lánanefnd bankans.
Í fyrsta kafla ákærunnar eru þeir Birnir Sær og Pétur Kristinn ákærðir fyrir að hafa, að undirlagi Ingólfs, Einars Pálma, Sigurðar og Hreiðars Más, gefið að sök markaðsmisnotkun með að hafa á kerfisbundinn hátt keypt mikið magn bréfa í bankanum sjálfum á reikning eigin viðskipta og þannig gefið ranglega til kynna eftirspurn eftir bréfunum. Þetta hefur jafnan verið kölluð kauphlið málsins, en með þessu eignaðist bankinn talsvert af bréfum í sjálfum sér sem þurfti svo að losna við.
Í þessum kafla eru allir ákærðu sakfelldir fyrir hlut sinn í málinu. „Það er niðurstaða dómsins, með vísun til þess er fram kemur í þessum gögnum og rakið hefur verið, að í deild eigin viðskipta í Kaupþingi hafi, á ákærutímabilinu, verið stunduð stórfelld markaðsmisnotkun með því að sett voru inn mörg kauptilboð í hlutabréf, eins og lýst var, og með því var ranglega gefið til kynna að eftirspurn væri eftir bréfunum. Eftirspurnin kom hins vegar nær öll frá bankanum sjálfum en ekki frá aðilum á verðbréfamarkaði,“ segi í dómi héraðsdóms.
Annar kafli ákærunnar er vegna markaðsmisnotkunar, en þar voru Hreiðar Már, Sigurður, Ingólfur og Magnús ákærðir fyrir að hafa látið svo líta út að félögin Holt, Mata og Desulo hefðu fjármagnað kaup sín á bréfum í Kaupþingi, þegar raunveruleg fjármögnun var í raun með lánum frá Kaupþingi að mestu leyti. Í ákærunni var þetta kallað sýndarmennsku viðskipti.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ekki þætti sannað að Hreiðar Már eða Sigurður hafi gerst sekir um markaðsmisnotkun í þessum lið ákærunnar. Þá var ákæruliðum gegn Magnúsi sem vörðuðu Desulo og Holt vísað frá dómi, en í tilfelli Mata var hann sýknaður.
Ingólfur var aftur á móti sakfelldur fyrir alla ákæruliði í þessum kafla. „Þegar framangreint er virt er það niðurstaða dómsins að með því að selja hlutabréf í Kaupþingi á þann hátt, sem lýst var, hafi framboð og eftirspurn eftir bréfunum verið gefin ranglega til kynna, með því að bankinn hafði forgöngu um sölurnar á nefndum kjörum. Þá hafi einnig verið beitt blekkingum með því að kaupendurnir tóku enga fjárhagslega áhættu sjálfir, fyrir utan Holt, aðra en svonefnda orðsporsáhættu. Áhættan var öll Kaupþings sem hafði ekki aðrar tryggingar en bréf í sjálfu sér. Samkvæmt þessu var hér um markaðsmisnotkun að ræða,“ segir í dómnum.
Þriðji kafli ákærunnar varðar umboðssvik vegna lánveitingar til félaganna þriggja sem tilgreind eru í öðrum kafla og svo lánveitingar til fjárfestisins Kevin Stanford.
Hreiðar Már, Sigurður, Ingólfur Magnús og Bjarki voru ákærðir vegna umboðssvika vegna allra félaganna, en auk þess var Björk ákærð fyrir hlutdeild að lánveitingu til Desulo. Var það hennar eina aðkoma að málinu, en áður hafði ákæra gegn henni vegna láns til Holts verið felld niður. Vegna lánveitingarinnar til Kevin Stanford voru svo Hreiðar Már, Sigurður og Magnús ákærðir.
Í tilfelli Holts var ákært fyrir þrjá liði (lánveitingar). Var Bjarki fundinn sekur um umboðssvik í tveimur þeirra, en Sigurður og Hreiðar í þeirri síðustu. Í tilfelli Mata þótti ósannað að ákærðu hefðu veitt lán til félagsins eins og þeim var gert að sök í ákærunni. Voru því allir sýknaðir vegna þess.Í tilfelli Desulo var Bjarki sakfelldur í öllum fjórum liðum þess kafla, en auk þess var Hreiðar Már sakfelldur fyrir einn lið. Hreiðar Már var svo einn sakfelldur vegna lánveitingarinnar til Kevin Stanfords.
Dómurinn kemst að nokkuð afdráttarlausri niðurstöðu þegar umboðssvikunum er lýst í dómnum og segir að fjármunum bankans hafi verið stefnt í verulega hættu.
„Það er niðurstaða dómsins að með því að lána félögum, sem hvorki áttu aðrar eignir en hlutabréfin né höfðu rekstur með höndum, hafi verið framin umboðssvik með því að aðstaðan var misnotuð og fjármunum bankans stefnt í verulega hættu. Breytir engu um þessa niðurstöðu hvort lánareglur voru brotnar eða ekki vegna þess að innan umboðs síns hjá bankanum bar ákærðu að hegða sér með hagsmuni hans í huga. Í því felst meðal annars að sjá til þess að lán séu tryggð með nægjanlegum og gildum tryggingum, greiðslugeta lántaka sé könnuð svo og eignastaða. Við framangreindar lánveitingar voru ekki sett önnur veð en hin keyptu hlutabréf, með einni undantekningu. Ákærðu hlaut að vera ljóst að félögin höfðu ekki aðra starfsemi með höndum en að eiga hlutabréfin og greiðslugeta lántakanna væri því takmörkuð við tekjur af þeim. Við lánveitinguna til Kevin Stanford virðist eignastaða hans og möguleikar á endurgreiðslu heldur ekki hafa verið ítarlega kannaðir. Með því, sem nú hefur verið rakið, var fé bankans stefnt í verulega hættu. Ákærðu misnotuðu aðstöðu sína í trúnaðarstörfum hjá Kaupþingi með því að gæta ekki við lánveitingarnar að framangreindum atriðum.“