Hálfrar aldar draumur Karls Friðrikssonar og Grétars Gústavssonar rættist þegar hringferð þeirra kringum landið á traktorum hófst í gær. Þeir kalla sig Vini Ferguson og fara hringinn á tveimur Massey Ferguson traktorum, annar þeirra var traktorinn sem þeir unnu á í sveitinni fyrir fimmtíu árum síðan. Félagarnir ætla að leggja góðu málefni lið og safna fyrir Vináttu – forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti. Áætlað er að ferðin taki 12-14 daga.
„Þeir fara ekki mjög hratt, svona 25 kílómetra hraða á klukkustund. Við höfum fengið mjög skemmtilegar bendingar frá vegfarendum. Fólk veifar til okkar og gefur okkur glaðleg merki. Það hefur enginn sent okkur þumalinn niður eða annan putta en þumalinn upp,“ sagði Karl í samtali við mbl.is.
Aðdragandi ferðarinnar hefur verið býsna langur. „Við vorum í sveit frá fimm ára aldri á bænum Valdarási. Þar vorum við fljótlega settir á vélar eins og gengur og gerist á þeim tíma. Síðan kom þessi vél sem við erum að keyra í dag, Massey Ferguson, upp úr 1960.“
Í augum strákanna var nýi traktorinn dýrgripur og þeirra uppáhald. „Við vorum svo hrifnir af þessu að einhvertímann kom þessi hugmynd upp þegar við vorum strákar að við skyldum einhvertímann fara á þessu tæki í kringum landið. Í vetur ákváðum við að láta drauminn rætast.“
Þeir félagar ætluðu fyrst að laumast hringinn án þess að láta nokkurn vita. „Þegar við sögðum fjölskyldunum að við ætluðum að gera þetta var okkur sagt að ef við gerðum þetta yrðum við að gera eitthvað til góðs. Barnaheill er með verkefni sem heitir Vinátta sem er gegn einelti og okkur fannst tilvalið að styrkja það.“
Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að hringja í 904-1900. Hvert símtal kostar 500 krónur, eða senda sms í sama númer sem kostar einnig 500 krónur.
Einnig má leggja inn á bankareikning Barnaheilla 0334-26-4521, kt. 521089-1059.