Sjö Kaupþingsmenn sakfelldir

Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var dæmdur í fjögurra ára og sex mánaða fangelsi í héraðsdómi Reykjavíkur í dag í hinu stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings.

Bjarki Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána hjá bankanum, fékk tveggja ára og sex mánaða fangelsisdóm.

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, var dæmdur í eins árs fangelsi til viðbótar við þann fangelsisdóm sem hann fékk í Al-Thani-málinu svokallaða samkvæmt heimildum mbl.is. Dómar þeirra eru allir óskilorðsbundnir.

Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra bankans, var ekki gerð frekari refsing, en hann hafði áður hlotið dóm í Al Thani-málinu.

Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson, starfsmenn eigin viðskipta Kaupþings, voru dæmdir í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi, og fellur refsing niður að tveimur árum liðnum haldi þeir almennt skilorð. Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta bankans, fékk tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm

Björk Þórarinsdóttir, fyrrverandi fulltrúi í lánanefnd Kaupþings, var sýknuð af ákæru sérstaks saksóknara. Tveimur ákæruliðum í máli Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, var vísað frá, en hann var sýknaður að öðru leyti.

Áður höfðu þeir Hreiðar Már, Sigurður og Magnús verið dæmdir í fangelsi í Al Thani-málinu, en þar fékk Hreiðar Már fimm og hálfs árs dóm, Sigurður fjögurra ára og Magnús var dæmdur í fjögur og hálft ár.

Í dómnum er Hreiðar Már ekki sýknaður, heldur ekki gerð frekari refsing. Samkvæmt upplýsingum mbl.is þýðir það að brot Hreiðars í þessu máli eru ekki alvarlegri en í Al Thani-málinu og því er ekki bætt refsingu við þann dóm. Við dóm Sigurðar er aftur á móti bætt einu ári.

Málið er eitt hið lengsta sinnar tegundar á Íslandi, en aðalmeðferð tók 22 daga. Níu voru ákærðir í heild og um 60 manns báru vitni fyrir dómi. Ákært var fyrir bæði markaðsmisnotkun og umboðssvik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert