Aðdragandinn var að árið 2012 óskaði ég eftir dómskvaðningu matsmanns sem tæki afstöðu til þess hvort barnið hefði látist af völdum banvæns heilahristings (e. Shaken baby-heilkenni) og ef ekki, hver raunveruleg dánarorsök hafi verið,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sigurðar Guðmundssonar sem var árið 2003 dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir manndráp af gáleysi.
Í maí 2013 skilaði hinn dómskvaddi matsmaður, Waney Squier, skýrslu sinni. Hann telur að barnið hefði ekki látist af völdum banvæns heilahristings. Squier treysti sér þó ekki til þess að slá annarri dánarorsök fastri.
Sjá frétt mbl.is: Ný gögn og fallist á endurupptöku
„Í ágúst 2013 sendi ég svo endurupptökunefndinni beðni með heimild í 33. kafla sakamálalaga þar sem óskað var eftir endurupptöku máls sem dæmt hafði verið í hæstarétti,“ segir Sveinn en beiðnin byggði á heimild í a-lið 211. gr. sakamálalaga þar sem segir að mál megi endurupptaka ef fram eru komin nú gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk.
Endurupptökunefnd var stofnuð með lagabreytingu árið 2013. Frá því að nefndin tók til starfa hefur hún tekið til meðferðar 33 beiðnir. 31 beiðni hefur verið hafnað eða vísað frá en tvær verið samþykktar þar til nú.
„Ég geri því ráð fyrir að ríkissaksóknari vísi málinu til Hæstaréttar á grundvelli niðurstöðu endurupptökunefndarinnar og Hæstiréttur ákveður svo hvenær málið verður þar flutt,“ segir Sveinn Andri í samtali við mbl.is.