Einkunnir verða gefnar í bókstöfum

Bókstafir verða á rafrænum einkunnaskírteinum næsta útskriftarárgangs úr grunnskóla í …
Bókstafir verða á rafrænum einkunnaskírteinum næsta útskriftarárgangs úr grunnskóla í stað talna. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Einkunnir útskriftarnema í grunnskólum verða í formi bókstafa í stað tölustafa næsta vor. Fyrirkomulagið hefur staðið til í aðalnámskrá grunnskólanna frá 2011 og er einkunnagjöf í samræmdum prófum nú þegar með þessum hætti að sögn Bjargar Pétursdóttur, deildarstjóra í stefnumótunar- og þróunardeild menntamálaráðuneytisins.

„Ákveðið var að setja fram nýjan einkunnakvarða sem er frábrugðinn þeim fyrri á þann hátt að hverri einkunn fylgir lýsing sem kallast matsviðmið. Lýsingarnar samræma að hluta til einkunnagjöf milli skóla og gefa nemendum, foreldrum og viðtökuskólum betri upplýsingar en áður um hvað einkunnirnar fela í sér,“ segir Björg.

Hæfni í stað þekkingar

Að sögn Bjargar er breytingin í takt við fyrirkomulag í nágrannalöndum. „Í takt við löndin í kringum okkur var ákveðið að innleiða hæfnihugtakið og áherslu á hæfni nemenda, sérstaklega í aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla. Í stað þess að setja fram markmið sem oft fjölluðu um þá þekkingu sem nemandi skuli búa yfir voru sett fram viðmið um hæfni. Þar með var lagður grunnur að heildstæðri nálgun og nýrri áherslu í skólakerfinu.“ 

Hún segir einkunnakvarðann sambærilegan einkunnagjöf hjá PISA, þar sem eru sex hæfniþrep. Upphaflega stóð til að gefa aðeins fjórar einkunnir; A, B, C og D. Eftir umsagnir hagsmunaaðila var hins vegar ákveðið að fjölga þeim í sex og er nú gefið A, B+, B, C+, C og D. Þá munu skólar geta gefið stjörnumerktar einkunnir þeim sem eru með einstaklingsmiðaða námskrá.

Tölustafir á undanhaldi

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur í auknum mæli verið horfið frá einkunnum í formi tölustafa í grunnskólum landsins, en t.a.m. fá nemendur á yngri stigum víða umsögn á borð við „gott“, „sæmilegt“ o.s.frv. Björg segir þessi mál á ábyrgð sveitarfélaga og grunnskólanna sjálfra, og þ.a.l. geti ráðuneytið ekki svarað fyrir þróunina. „Þennan matskvarða er skólum skylt að nota við brautskráningu nemenda úr 10. bekk. Skólar ákveða að öðru leyti hvernig þeir haga námsmati og einkunnagjöf nemenda í öðrum árgöngum,“ segir Björg um bókstafakerfið.

Spurð hvort ekki sé hægur leikur fyrir hvern grunnskóla að túlka hæfniviðmiðin með ólíkum hætti, þannig að samræmingin sé í raun og veru lítil sem engin, segir Björg þetta a.m.k. skref í átt til aukinnar samræmingar. „Þar sem allir skólar miða við sömu hæfnilýsingu fyrir hverja einkunn eykst samræming frá því sem var, segir Björg. 

Nýja fyrirkomulagið eykur samræmi í einkunnagjöf að mati Bjargar.
Nýja fyrirkomulagið eykur samræmi í einkunnagjöf að mati Bjargar. mbl.is/Þorvaldur Örn

Verður þetta ekki til þess að torvelda enn frekar inntöku í framhaldsskóla, þar sem hafsjór A-umsókna mun flæða til vinsælla skóla?

„Námsmatsstofnun var falið að útfæra stigin á bak við námsmatskvarða grunnskólans þannig að auðveldara yrði að vinna með tölfræðiupplýsingar sem geta nýst við mat og upplýsingaöflun um skólakerfið. Samtímis má ætla að framhaldsskólar geti nýtt stigin við val á milli nemenda,“ segir Björg. Þá verður einnig þróað sérstakt rafrænt skírteini við lok grunnskóla og notað við einkunnaskil vorið 2016. „Það mun auka samræmi og gefa heildstæðari upplýsingar um hæfni hvers nemanda,“ segir Björg.

Er ekki verið að ryðja burt hvötum og viðmiðum með notkun umsagna og bókstafa sem spanna stórt bil í stað beinharðra einkunna í tölustöfum?

„Ráðuneytið ákvað að fjölga einkunnum í sex þar sem fjórar einkunnir þóttu ekki endurspegla nógu vel þá dreifingu vitnisburðar sem námsmat þarf að sýna,“ segir Björg og vísar þar til áðurnefndrar breytingar eftir umsagnir hagsmunaaðila.

Háum nemendum hafnað

Gríðarháar einkunnir útskriftarnema úr grunnskólum landsins í ár hafa vakið athygli víða og orðið „einkunnaverðbólga“ m.a. skotið upp kollinum. Þannig hafnaði Verzlunarskóli Íslands t.a.m. 60 nemendum með 9,0 eða hærra í meðaleinkunn í ár. „Það er ótrú­leg­ur fjöldi nem­enda sem er hafnað í ár, nem­end­ur sem und­an­far­in ár hefðu alltaf kom­ist inn,“ sagði Ingi Ólafsson, skólastjóri Verzló, í samtali við mbl.is á dögunum.

Frétt mbl.is: Hafnað með yfir 9 í einkunn

Ingi hefur viðrað hugmyndir um nýtt fyrirkomulag við inntöku. „Við þurf­um að hugsa hlut­ina upp á nýtt. Ég reikna ekki með því að við mun­um fara svona stíft eft­ir ein­kunn­um eft­ir ár, ég hef viðrað þá skoðun að hafa inn­töku­próf.“

Skólastjóri Verzlunarskóla Íslands íhugar að taka upp inntökupróf.
Skólastjóri Verzlunarskóla Íslands íhugar að taka upp inntökupróf. mbl.is/Árni Sæberg

Frétt mbl.is: Íhuga inntökupróf í Versló að ári

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert