„Þökkum þér fyrir að ganga fremst“

Vigdís á hátíðarhöldunum í kvöld.
Vigdís á hátíðarhöldunum í kvöld. mbl.is/Þórður

„Hvernig var að taka við mosagrónu karlakefli árið 1980?“ Þessarar spurningar spurði Kristín Helga Gunnarsdóttir áhorfendur á Austurvelli í dag sem mættir voru til að fagna því að 35 ár eru frá því að Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands. 

Sjá frétt mbl.is: Vigdísi fagnað í miðborginni

„Það hlýtur að hafa verið kúnstugt að hreyfa sig innan um þessa grjóthörðu gæja sem áttu og máttu þarna í stjórnarráðinu. Svo snúið að stundum urðum við hin vör við það. En skilaboðin um mildi og mannúð. Menningu og menntun. Verndun og virðingu fyrir náttúrunni streymdu alltaf sterk frá forsetaembættinu.“

„Við sigruðum öll þennan dag og nú, 35 árum síðar, er kjör Vigdísar eitt af mikilvægustu lýðræðis- og mannréttindaskrefum sem þessi þjóð hefur tekið.“

„Lítil bylting sem skipti svo miklu máli og gerir enn fyrir börnin okkar, syni og dætur og framtíðina. Við höldum áfram að berjast við breyskan og forpokaðan tíðaranda. Nú sem aldrei fyrr verðum við að standa vörð um kvenfrelsi og mannréttindi,“ sagði Kristín í ræðu sinni áður en hún bætti við. 

„Glerþakið er þarna ennþá. Það sést á kjarabaráttu kvennastétta og á íspinnunum sem þær fá að launum fyrir yfirvinnu. Við verðum að brýna unga fólkið og yfirvaldið. Sú kynslóð kvenna sem nú eldist gekk í rauðum sokkum. Hélt kvennafrídag. Stofnaði kvennaframboð og kaus konu sem forseta. Það þarf að hysja duglega upp um sig til að stíga í spor þessara kvenna og láta ekki fenna í þau.“

Ræða hennar lauk svo á kveðju til Vigdísar.

„Í þeim sporum skulum við öll ganga og við þökkum þér Vigdís fyrir að ganga fremst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert