Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, tilkynnti á Alþingi í dag að Andrés Ingi Jónsson tæki sæti á þingi í forföllum Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Andrés er þriðji varaþingmaður VG í Reykjavíkurkjördæmi norður. Fyrri tveir varaþingmenn flokksins í kjördæminu sáu sér ekki fært að hlaupa í skarðið.
Andrés er með meistarapróf í alþjóðastjórnmálum frá University of Sussex og BA-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands. Hann starfaði áður sem meðal annars sem aðstoðarmaður Svandísar Svavarsdóttur þáverandi umhverfisráðherra og aðstoðarmaður Álfheiðar Ingadóttur þáverandi heilbrigðisráðherra.