Kjarnarnir tengdir með Borgarlínu

Áætlunin boðar m.a. götur fyrir alla ferðamáta.
Áætlunin boðar m.a. götur fyrir alla ferðamáta.

Íbúum á höfuðborgarsvæðinu mun fjölga um 70.000 fyrir árið 2040, ef marka má nýtt svæðisskipulag, Höfuðborgarsvæðið 2040, sem staðfest verður með undirritun í Höfða í dag. Samkvæmt skipulaginu verður m.a. nýtt léttlestar- og hraðvagnakerfi tekið í notkun til að tengja kjarna sveitarfélaganna á svæðinu og þá verður leitast við að tryggja hámarkshollustu neysluvatns til framtíðar.

Höfuðborgarsvæðið 2040 er sameiginleg stefna Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Seltjarnarnesbæjar, Mosfellsbæjar og Kjósarhrepps um samstarf, skipulagsmál og hagkvæman vöxt höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040. Ekki er um að ræða hefðbundinn skipulagsuppdrátt sem sýnir nákvæma landnotkun, heldur stefnumótandi áætlun.

Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu felur áætlunin m.a. í sér að skýr mörk verða dregin milli þéttbýlis og dreifbýlis og vexti í auknum mæli beint að kjörnum og þróunarsvæðum. „Með uppbyggingu innan þéttbýlis er stutt við betri nýtingu á núverandi grunnkerfi samgangna, veitna og almannaþjónustu og dregið úr þrýstingi um uppbyggingu á óbyggðum svæðum,“ segir í kynningarefni frá SSH.

Leitast verður við að stofnleiðir vega, almenningssamgangna, hjólreiða og göngu myndi heildstæð kerfi sem tengja sveitarfélögin vel saman. „Hryggjarstykkið í stefnunni er Borgarlína, nýtt hágæðaalmenningssamgöngukerfi sem tengir kjarna sveitarfélaganna og flytur farþega með skjótum og öruggum hætti um höfuðborgarsvæðið.“

Samkvæmt upplýsingaefni SSH munu sjálfbærar hverfiseiningar byggjast á fjölbreyttum húsakosti og blandaðri landnotkun með nærþjónustu í göngufæri og aðgengi að öflugu almenningssamgöngukerfi. Aukin samvinna um nýtingu neysluvatns og viðhald vatnsverndar muni tryggja íbúum aðgang að hreinu og ódýru neysluvatni.

„Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru ólík og mikilvægt er að þau fóstri sín sérkenni til að allir geti fundið byggð við hæfi. Þannig verði skapaður frjósamur jarðvegur sem laði það besta fram á svæðinu öllu. Höfuðborgarsvæðið 2040 er virk áætlun til að ná fram sameiginlegri sýn sveitarfélaganna um hagkvæman vöxt svæðisins.“

Áætlunin verður sem fyrr segir staðfest með undirritun í Höfða í dag, en viðstaddir verða m.a. framkvæmdastjórar sveitarfélaganna sjö og forstjóri Skipulagsstofnunar. Þá mun umhverfis- og auðlindaráðherra afhenda sveitarfélögunum nýja samþykkt fyrir vatnsverndarsvæðin á höfuðborgarsvæðinu.

Ítarlegar upplýsingar um Höfuðborgarsvæðið 2040 má finna á heimasíðu SSH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert