Tekjuhæstu fengu 1,5 milljarðs lækkun

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra þegar þeir …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra þegar þeir kynntu aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lækkunar höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána. mbl.is/Kristinn

Heimili sem fengu lækkun höfuðstóls húsnæðislána í aðgerðum ríkisstjórnarinnar og greiddu auðlegðarskatt vegna ársins 2013 voru alls 1.250 eða um 2% þeirra sem fengu lækkun. 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána sem lögð var fram á Alþingi í dag. Fjárhæðin nam 1,5 milljörðum króna og náði til fjórðungs þeirra heimila sem greiddu auðlegðarskatt. Meðallækkun skulda þessara heimila var 1,2 milljónir króna.

Fram kemur í skýrslunni að skýringin á þessu sé einkum sú að þeir sem tekjuhæstir væru skulduðu allajafna mest en aðgerð ríkisstjórnarinnar var almenns eðlis og var ekki tekjutengd. Höfuðstólslækkun fengu tæplega 94 þúsund einstaklingar í 57 þúsund fjölskyldum. 

Hlutfallslega flestir sem sóttu um höfuðstólslækkun voru á aldrinum 46 til 55 ára þegar lækkunin átti sér stað. Meðalskuldalækkun þeirra nam 1.360 þúsundum króna. Hins vegar sóttu aðeins 50% þeirra sem voru 30 ára eða yngri á árunum 2008 og 2009 um lækkun og áttu eftirstöðvar árið 2013. Ástæðan er rakin til þess að þeir hafi ýmist verið nýkomnir út á fasteignamarkaðinn eða fengið hlutfallslega mikla lækkun skulda í fyrri úrræðum. Hlutfallslega flestir sóttu um höfuðstólslækkun í Reykjavíkur og nágrannasveitarfélögum eða 81% þeirra sem voru með eftirstöðvar miðað við 2013. Hlutfallslega fæstir sóttu hins vegar um á Norðurlandi vestra eða 73%. 

Lögð er áhersla á það í samantekt í lok skýrslunnar að lækkun höfuðstóls hafi verið almenn aðgerð þar sem skuldir, hámarksupphæð lækkunar og umfang þeirra aðgerða sem umsækjandi hafði notið hafi verið einu áhrifaþættirnir á þá upphæð sem hver og einn hafi fengið í sinn hlut. Eftir sem áður hafi verið nokkur mismunur á milli þjóðfélagshópa.

„Tvær meginskýringar eru á mismun á upphæð lækkunar höfuðstóls eftir þjóðfélagshópum, fjölskyldustærð, búsetu, aldri og tekjum. Annars vegar er íbúðaskuld mismunandi eftir þessum þáttum, hinir tekjuhærri skulda að jafnaði meira en fjölskyldur með lægri tekjur, hinir eldri minna en þeir sem yngri eru, stórar fjölskyldur skulda meira en hinar minni og íbúar landsbyggðarinnar skulda lægri upphæðir en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu vegna lægra íbúðaverðs. Hins vegar er lækkun höfuðstóls mismunandi eftir því hvaða fyrri úrræði íbúðareigendur höfðu nýtt sér. Að þessu slepptu er eðli höfuðstólslækkunarinnar það að sama upphæð skuldar fékk sömu lækkun höfuðstóls.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka