Þinglok á föstudaginn

mbl.is/Styrmir Kári

Stjórnmálaflokkarnir á Alþingi hafa náð samkomulagi um þinglok og er stefnt að því að þau verði á föstudaginn. Þetta staðfestir Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, í samtali við mbl.is. Samkomulagið náðist í gærkvöldi.

Róbert segir aðspurður að makrílfrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frestist til haustsins samkvæmt samkomulaginu. Sama sé að segja um breytingar á stöðu Þróunarsamvinnustofunar. Óbreytt tillaga umhverfisráðherra um rammaáætlun fari hins vegar í atkvæðagreiðslu að undanskilinni þeirri breytingu að Hvammsvirkjun verði væntanlega færð úr biðflokk í nýtingarflokk. Þá verða frumvörp fjármálaráðherra um stöðugleikaskatt og stöðugleikaframlag vegna þrotabúa föllnu bankanna afgreidd.

Samtals verða á sjöunda tug mála afgreidd fyrir þinglok samkvæmt samkomulaginu. Þar af sex þingmannamál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert