„Verðum hálfgerðir titrarar eftir það“

„Við erum staddir í Ólafsfirði, vorum að fara í gegnum Héðinsfjarðargöngin. Í gær vorum við í Siglufirði og gistum þar síðustu nótt. Ferðin gengur eins og í sögu hjá okkur,“ sagði Karl Friðriksson í samtali við mbl.is. Hann og Grétar Gústavsson eru á ferð hringinn í kringum landið á traktor og safna í leiðinni pening til styrktar Vináttu – for­varn­ar­verk­efni Barna­heilla gegn einelti. 

„Veðrið hefur verið ágætt. Það er búið að vera þurrt og sæmilegur hiti. Stundum hefur verið dálítið hvasst en það hefur engin áhrif á okkur.“ Félagarnir lögðu af stað frá Reykjavík síðasta fimmtudag og búast við að ferðin taki tvær vikur. „Við höfum fengið mjög góðar móttökur þar sem við höfum stoppað og það er gaman að rabba við fólk á leiðinni.“

Þeir ætla í dag að komast á höfuðstað Norðurlands. „Þar verðum við í nótt og söfnum kröftum fyrir morgundaginn. Það verður langur dagur en við ætlum að fara frá Akureyri til Egilsstaða í einum rykk sem er mikil áskorun. Við verðum örugglega hálfgerðir titrarar eftir það!“

Karl segir bíla á þjóðvegum landsins greinilega ánægða með þeirra framtak. „Allir veifa til okkar og senda okkur góð og glaðleg merki og það þykir okkur mjög skemmtilegt að sjá.“

Hægt er að leggja söfn­un­inni lið með því að hringja í 904-1900. Hvert sím­tal kost­ar 500 krón­ur, eða senda sms í sama núm­er sem kost­ar einnig 500 krón­ur.

Einnig má leggja inn á banka­reikn­ing Barna­heilla 0334-26-4521, kt. 521089-1059.

Mjakast hringinn á traktor

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert