Bókstafirnir leysa ekki vandann

Skólaeinkunnir á formi bókstafa verða til hliðsjónar við inntöku í …
Skólaeinkunnir á formi bókstafa verða til hliðsjónar við inntöku í framhaldsskóla á næsta ári. mbl.is/Ernir

„Við í framhaldsskólunum verðum bara að reyna að breyta aðeins okkar vinnulagi og horfa á aðra hluti,“ segir Ingi Ólafsson, skólastjóri Verzlunarskóla Íslands, um nýtt fyrirkomulag í einkunnagjöf til útskriftarnema úr grunnskólum. Kerfið verður tekið upp á næsta ári, en ætlunin er að einkunnir verði á formi bókstafa, í stað talna eins og áður hefur verið.

Þannig verða tekin upp svokölluð matsviðmið og horft til hæfni nemenda. Gefnar verða einkunnir á forminu A, B+, B, C+, C og D. Á bak við hvern bókstaf verður síðan umsögn og svokölluð rafræn skírteini notuð við einkunnaskil.

Skólastjórar Verzlunarskólans, Fjölbrautaskólans í Garðabæ og Kvennaskólans í Reykjavík eru sammála um að kerfið muni ekki leysa inntökuvanda vinsælla framhaldsskóla. 

Frétt mbl.is: Einkunnir verða gefnar í bókstöfum

„Þetta tekur okkur miklu lengri tíma núna, því nú þarf auðvitað að skoða umsagnir með nemendum,“ segir Ingi. „Ég hef í rauninni ekki trú á að þetta muni auðvelda inntöku hjá okkur. Hins vegar gæti þetta hins vegar auðveldað áfangaskólum að koma nemendum í áfanga sem henta þeim.“

Hann segir að þannig muni það eflaust reynast vel fyrir skóla með áfangakerfi að skoða umsagnir og hæfni í hverju fagi við niðurröðun. Þetta sé hins vegar ekki raunin í bekkjaskóla á borð við Verzlunarskólann, enda taka allir nemendur sama grunn til að byrja með. „Ég vona samt að þetta verði ekki þannig að allir góðu nemendurnir komi með A í öllu.“

Skólameistari FG vill að nemendur fái skólavist sem næst heimilum …
Skólameistari FG vill að nemendur fái skólavist sem næst heimilum sínum. mbl.is/Styrmir Kári

Kallar eftir hverfaskiptingu

Kristinn Þorsteinsson, skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ, segir að þar á bæ treysti fólk sér til að vinna eftir nýju kerfi.

„Ef inntökuferlið verður alveg óbreytt veit ég hins vegar ekki alveg hvernig sumir skólar ætla að fara að. Bókstafakerfið verður erfiðara ef til stendur að taka bara inn eftir einkunnum,“ segir Kristinn.

Hann telur rétt að einhvers konar hverfaskipting sé notuð við inntöku. „Ég tel mikið æskilegra að sem flestir nemendur komist í skóla nálægt sínu umhverfi. Mér finnst við allavega þurfa að taka þá umræðu hvort við viljum framhaldsskólakerfi þar sem nemendur raðist í skóla eingöngu eftir einkunnum.. Í dag er tekið inn eftir einkunnum í sumum skólum, sem getur þýtt að nemendur, sérstaklega í Reykjavík, geta þurft að fara langar leiðir til að komast í skólann.“

Garðbæingar hafa forgang inn í skólann að sögn Kristins, en sérbrautir á borð við leiklistarbraut eru hins vegar ekki háðar búsetuskilyrðum.  

Hann kveðst ekki hlynntur hugmyndum um inntökupróf inn í framhaldsskóla.

„Mér finnst það alveg galið. Við erum að senda hátt í 100% nemenda í framhaldsskóla og eigum sem samfélag að geta boðið nemendum upp á nám við hæfi nærri heimili sínu.“

Hverfaskipt inntaka var reynd árin 2010 og 2011, en þá fengu nemendur úr tilteknum grunnskólum forgang í 40-45% nýnemaplássa í mismunandi framhaldsskólum. Fyrirkomulagið var umdeilt og var endurskoðað eftir að álit barst frá Umboðsmanni Alþing­is um að það ætti sér ekki viðhlít­andi stoð í lög­um

Frétt mbl.is: Ráðuneytið endurskoðar reglur

Frá peysufatadegi í Kvennaskólanum.
Frá peysufatadegi í Kvennaskólanum. mbl.is/Eggert

Beri saman samræmd próf og skólaeinkunnir

Ingibjörg S. Guðmundsdóttir, skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík, sér fyrir sér að bókstöfunum verði gefið vægi við inntöku á næsta ári og úr því fundið einhvers konar meðaltal til að raða nemendum eftir. Aðspurð segist hún ekki telja að kerfið muni leysa inntökuvanda vinsælla skóla, enda sé það erfitt verkefni. „Nei, á meðan ekki allir fá þann skóla sem þeir sækja um sem fyrsta val verða einhverjir óánægðir,“ segir Ingibjörg.

Hún hefur ekki íhugað að taka upp inntökupróf.

„Við munum ekki taka upp inntökupróf á næstunni. Mér hefur fundist í gegnum árin að höfnun á grundvelli einkunna sé réttlátasta aðferðin. Auðvitað má þó hugsa sér aðrar leiðir og hafa þær verið reyndar, t.d. búsetumörk. Það var ekki vinsælt og þótti mismuna umsækjendum.“

Ingibjörg segist telja leiðbeinandi samræmd próf í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla nægileg. Hins vegar telur hún rétt að skoða samhengið milli einkunna í samræmdum prófum í 10. bekk og skólaeinkunna. „Slík skoðun gæti væntanlega leitt í ljós hvort einkunnaverðbólga sé til staðar í einstökum skólum eða ekki.“

Inntökupróf eru til skoðunar í Versló fyrir næsta haust.
Inntökupróf eru til skoðunar í Versló fyrir næsta haust. mbl.is/Árni Sæberg

Aldrei byggt alfarið á inntökuprófum

Ingi hefur áður viðrað hugmyndir um inntökupróf við skólann á næsta ári, en hann segir að það verði skoðað alvarlega.

„Eins og ég hef alltaf lagt áherslu á eru þetta ekki próf sem nemendur verða að „ná“. Við myndum aldrei byggja alfarið á þessu, en niðurstöður yrðu hins vegar notaðar til að styðjast við í innritun.“

Hann segir hugmyndina þó enn óútfærða. „Kannski verður niðurstaðan svo að okkur finnist þetta bara vitleysa og sleppum þessu. Það verður að koma í ljós.“

Frétt mbl.is: Íhuga inntökupróf í Versló að ári 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert