Deildu um lækkun húsnæðislána

Lækkun á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána var þingmönnum efst í huga á Alþingi í morgun í umræðum um störf þingsins. Tilefnið var skýrsla Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.

Stjórnarandstæðingar gagnrýndu harðlega með hvaða hætti staðið var að aðgerðunum. Þær hefðu ekki komið þeim best sem þyrftu mest á þeim að halda. Lögðu þeir sérstaka áherslu á að fólk sem greitt hefðu auðlegðarskatt hafi fengið samtals 1,5 milljarðs króna lækkun.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, benti á að fram kæmi í skýrslunni að með fyrri úrræðum og dómar um ólögmæti gjaldeyrislána hefðu skuldir heimilanna verið lækkaðar samtals um 216 milljarða króna á tímabilinu 2009 til 2013-14. Þar af um 66 milljarða með beinum aðgerðum stjórnvalda.

Steingrímur sagði um verulega tilfærslu á fjármunum á milli kynslóða. Mest hefði farið til þeirra sem væru eldri en 50 ára og einungis 4,4 milljarðar til 35 ára og yngri. Þá hefðu 20 milljarðar farið til þeirra sem tekjuhæstu.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði höfuðstólslækkunina hafa tekist gríðarlega vel. Komið hefði fram í fréttum að um 1.250 heimili hefðu skipt með sér 1,5 milljarði króna. Vísaði hann þar til þeirra sem greitt hefðu auðlegðarskatt. Það þýddi hins vegar að um 55.800 heimili hefðu skipt með sér 88,5 milljarði króna.

Stærstur hluti höfuðstólslækkunarinnar hefði farið til þeirra sem væru með meðaltekjur og minni að sögn Þorsteins. Fólks þar sem tvær fyrirvinnur væru á heimilinu. Fólks með meðaltekjur miðað við launataxta ASÍ, BHM og BSRB. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka