Nokkrar tilkynningar hafa borist um jarðskjálfta í kvöld. Stærstu skjálftarnir sem mælst hafa í kvöld í jarðskjálftahrinu sem nú stendur yfir skammt norðvestur af Geirfugladrangi við Reykjanes eru hátt í 4 stig. Þeir hafa fundist í Reykjanesbæ og einnig hefur Veðurstofan fengið tvær tilkynningar ofan af Akranesi. 100 skjálftar hafa mælst.
Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar hófst jarðskjálftahrina um 4 kílómetra norðvestur af Geirfugladrangi um klukkan 21 í kvöld. Aðeins hefur dregið úr henni í svipinn en hún er þó enn í gangi.
Ekki er óalgengt að slíkar hrinur gangi yfir á þessum slóðum og þær þurfa ekki að boða neitt, samkvæmt upplýsingum jarðeðlisfræðings.
Tilkynning frá Veðurstofunni:
„Í kvöld um kl. 21 hófst jarðskjálftahrina u.þ.b. fjóra kílómetra norðvestur af Geirfugladrangi á Reykjaneshrygg. Hátt í 100 skjálftar hafa mælst nú þegar, stærstu um fjögur stig. Tilkynningar hafa borist frá Reykjanesbæ og Akranesi um að skjálftar hafi fundist þar. Hrinan er enn í gangi, en heldur hefur dregið úr henni þegar þetta er skrifað [klukkan 22:37]. Skjálftahrinur eru ekki óalgengar á þessum slóðum. Náið verður fylgst með framvindu mála.“