Karl Friðriksson og Grétar Gústavsson fóru lengstu dagleið sína á hringferð sinni á traktorum um landið í gær, frá Akureyri til Egilsstaða. Með ferðalaginu safna þeir pening til styrktar Vináttu – forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti.
„Ferðin í gær var 12 tímar og gekk vel framan af. Frá Möðruvöllum lentum við í slagviðri og vorum fimm tíma í leiðindaveðri, frá Möðruvöllum til Egilsstaða. Það var frekar strembið og lá við að þetta væri slydda. Við ákváðum að fara svona langa vegalengd í gær til að verða á undan veðrinu því við sáum að spáin fyrir daginn í dag var ekki góð en veðrið var á undan okkur,“ sagði Karl í samtali við mbl.is. Blaðamaður spurði Karl hvort það væri ekki erfitt að vera á undan einhverjum á traktor og hann hló og svaraði játandi.
Þeir félagar fengu frábærar móttökur við komuna til Akureyrar á þriðjudag. „Við fengum fylgd tíu traktora sem allir vorum í gömlum klassa. Þannig keyrðum við í halarófu inn í bæinn og leyfðum einum gömlum að leiða ferðina sem kemst ekki hraðar en 10 kílómetra hraða. Annars hefðum við bara stungið hann af! Þetta var einstaklega gaman og við vorum leystir út með gjöfum sem komu sér vel í gær.“
Karl og Grétar fengu húfur og vettlinga að gjöf sem þeir notuðu í vonda veðrinu.
„Á morgun heldur för okkar áfram en þá förum við frá Egilsstöðum til Djúpavogs. Við ætlum að þræða firðina Reyðarfjörð og Fáskrúðsfjörð og það verður vonandi þægileg ferð,“ sagði Karl.