Hvalur 9 kom í gærkvöldi með fyrstu langreyðina á þessari vertíð til vinnslu í Hvalstöðinni í Hvalfirði. Tveir menn reru á litlum báti í kringum hvalbátinn og hvalinn þegar hann kom til hafnar og köstuðu reykblysum í sjóinn. Virtust þeir vera að láta í ljós skoðun sína á hvalveiðum.
Eftir að skepnan hafði verið dregin upp á planið tóku hvalskurðarmenn til við sín verk. Þótt þetta sé fyrsti hvalur ársins eru þetta allt vanir menn sem kunna handtökin. Þeir þurftu að hafa hraðar hendur því hinn hvalbáturinn, Hvalur 8, dólaði í kjölfarið með annað dýr sem einnig veiddist seint í fyrrakvöld djúpt úti af landinu.
Þótt veður hafi ekki leikið við hvalfangara náðu þeir að veiða tvo hvali daginn sem þeir komu á miðin. Hval hf. er heimilt að veiða 154 langreyðar í sumar, auk þess kvóta sem geymdur var frá fyrra ári. Í fyrrasumar veiddust 137 dýr þrátt fyrir að veður væri óhagstætt. Nánar á mbl.is í dag.
Frétt mbl.is: Dróni gegn hvalveiðimönnum