„Pétur var duglegur eldhugi“

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd úr safni.
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd úr safni.

Unnur Brá Konráðsdóttir minntist Péturs Blöndal í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum í kvöld „Pétur var duglegur eldhugi, sem var óhræddur um að standa á eigin sannfæringu,“ sagði Unnur Brá . Hún sagði að allir þingmenn ættu að tileinka sér eiginleika Péturs.

Hún sagði mörg góð skref hafa verið tekin í rétta átt. Frekari skref væru lækkun skatta og tolla og barátta fyrir auknu jafnrétti. „Fyrirtækin í landinu hafa ekki efni á öðru,“ sagði Unnur Brá. 

Hún sagði aukið frelsi vera öllum til hagsbóta, einkum og sér í lagi neytendum. Hún sagði heyra til undantekninga að hið opinbera stæði í verslunarrekstri, og sagði ÁTVR þar stóra undantekningu, sem enn stæði til að afnema.

Oddný G. Harðardóttir sagði brenna á jafnaðarmönnum að tryggja jafnan aðgang allra landsmanna að góðri heilbrigðisþjónustu og menntun. „Við viljum styrkja velferðarkerfið okkar og jafna kjör fólksins í landinu,“ sagði Oddný.

Hún sagði ástandið í heilbrigðiskerfinu er grafalvarlegt. „Við stöndum frammi fyrir því að á fjórða hundrað heilbrigðisstarfsmanna hafa sagt upp störfum út um allt land, flestir á Landspítalanum. Erfiðleikar vegna skorts á heilbrigðisstarfsmönnum blasa við. Lög á kjaradeilur og hótanir um niðurskurð er ekki til að bæta ástandið.“

Hún velti upp hvort verið sé að svelta heilbrigðiskerfið til að ýta undir einkarekstur en áform ríkisstjórnarinnar um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu mun vafalítið veikja heilbrigðiskerfið, einkum sjúkrahúsin, sagði Oddný.

„Helstu hagfræðingar heims hafa lýst yfir skipbroti frjálshyggjustefnunnar og brauðmolakenningar hennar og hvetja nú þjóðir til að stuðla að auknum jöfnuði. Með margþættum rannsóknum á lífskjörum um allan heim hafa fræðimenn sýnt fram á að samfélög sem byggð eru upp í anda jafnaðarmanna eru bestu samfélögin,“ sagði Oddný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert