Stærsti skjálftinn 5 að stærð

Eins og hér má sjá hafa marg­ir skjálft­ar mælst á …
Eins og hér má sjá hafa marg­ir skjálft­ar mælst á svæðinu. mynd/​Veður­stofa Íslands

Jarðskjálftahrinan sem hófst um klukkan 21 í gærkvöldi stendur enn. Stærsti skjálftinn mældist 5 að stærð klukkan 02:25 í nótt en alls hafa á þriðja hundrað skjálftar mælst síðan hrinan hófst.

Stærsti skjálftinn fannst víða á Reykjanesskaga, á Höfuðborgarsvæðinu, á Akranesi og einnig barst Veðurstofunni tilkynning frá skipi sem statt var um 10 kílómetrum frá upptökum skjálftans.

Nokkrir skjálftar voru á milli 4 og 5 að stærð og enn er unnið að yfirferð minni skjálfta að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofunni. Þar sem skjálftarnir eru um 30 kílómetra frá landi og þar af leiðandi utan mælakerfis Veðurstofu Íslands þurfti að fá upplýsingar og gögn erlendis frá til þess að reikna stærðir stærstu skjálftanna.

Á þriðja hundrað skjálftar hafa mælst síðan hrinan hófst. Samfelld virkni var frá klukkan 21 til miðnættis en eftir það hefur hún verið í kviðum með allt að tveggja til þriggja klukkutíma hléum á milli. Síðasta kviðan var um klukkan 7 í morgun og síðan hefur verið rólegt.

Frétt mbl.is: Tvö hundruð skjálftar mælst

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert