Urðu að yfirgefa sumarhúsið

Karl Tómasson illa farinn eftir flugurnar.
Karl Tómasson illa farinn eftir flugurnar. Úr einkasafni.

„Það er ekkert grín að lenda í þessu, algjör hryllingur,“ segir Karl Tómasson, tónlistarmaður sem varð fyrir árás lúsmýs síðastliðna helgi í sumarbústað sínum í Kjósinni. Ekki er vitað til að slík­ar at­lög­ur hafi átt sér stað áður hér á landi og lentu sum­ar­húsa­eig­end­ur marg­ir hverj­ir illa í mý­inu beggja vegna Hvalfjarðar.

Karl var í sumarbústað sínum ásamt fjölskyldu sinni og fór snemma til rekkju. „Ég fór snemma að sofa og hafði rifu á hurðinni vegna þess hve hlýtt var inni í húsinu.“ Hann vaknaði svo stuttu seinna við stungur og ónot en lét það ekki á sig fá og reyndi að sofna aftur. „Nú sé ég mest eftir því að hafa ekki reynt að koma mér út úr þessum aðstæðum en það er alltaf hægt að vera vitur eftir á.“ Hann segir þetta eflaust hafa verið fínasta veisluborð fyrir flugurnar þar sem að hann lá ofan á sænginni vegna hita og var lítið í því að berja flugurnar af sér.

Karl er þakinn bitinn og telur þau skipta hundruðum. Nú er bitin byrjuð að hjaðna en hann segir kláðann koma í köstum. Karl hefur fengið töluverð viðbrögð við myndum sem hann birti af bitunum á Facebook síðu sinni og telur sveitungi hans úr Mosfellsbænum sig einnig hafa orðið var við fluguna. 

Segir ekki fréttir af tunglinu fyrr en maður er lentur á því 

Erling Ólafsson, skordýrafræðngur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands segir að svo virðist sem lúsamýið sé í kringum Hvalfjörðinn. Hann segir að nú sé sá tími árs þar sem mikið er um flóabit en einnig sé bitmýið komið á kreik. Það eru því nokkrir kandídatar sem koma til greina sé fólk bitið. Náttúrufræðistofnun hefur borist eintak af lúsmý og er flugan í rannsókn. „Ég get lítið tjáð mig um fluguna núna, maður segir ekki fréttir af tunglinu fyrr en maður er lentur á því.“

Hann segir veðurskilyrði hafa verið einstaklega góð síðastliðna helgi en austanátt skapar mestu veðurblíðuna á þessum slóðum. „Þetta er allt svo sem bara pælingar, það var einnig mikið logn í Eyjafirði en ég hef þó ekkert heyrt þaðan um fluguna.“

Þá varð Björn Kristinsson einnig lúsmýinu að bráð en hann segir flugurnar afar óhuggulegar. „Þær eru mjög litlar og stökkva á mann eins og lýs.“ Björn gat ekkert sofið yfir nóttina og endaði á því að yfirgefa sumarhús sitt. „Upp í sumarbústað vill maður hafa frið og ró en það er ekki mikill friður fyrir þessum dýrum.“

Lúsmý úr Kjósinni síðastliðna helgi.
Lúsmý úr Kjósinni síðastliðna helgi. Erling Ólafsson.
Kláði fylgir bitunum.
Kláði fylgir bitunum. Úr einkasafni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert