„Ég get ekki sagt til um hvort þetta sé eftir lúsmý, en það hafa verið óvenjumörg bit í sumarbúðunum undanfarna daga miðað við það sem við erum vanar,“ segir Guðrún Nína Petersen, formaður stjórnar Vindáshlíðar. Tilkynningar hafa borist um svæsin mýbit frá Hvalfjarðarsvæðinu og frá stúlkum sem komu nýlega úr sumarbúðunum. Hins vegar er ekki vitað hvort það sé vegna lúsmýs.
„Við bíðum og fylgjumst með því sem kemur frá Náttúrufræðistofnun,“ segir Guðrún Nína. Hún segir sumarbúðirnar staðsettar lengra frá vatninu en staðinn þar sem tilvikin komu upp, þó svo að eitthvað kunni að berast með ánni sem er rétt hjá sumarbúðunum.
Hún á ekki von á að þessar árásir mýsins muni hafa áhrif á starfsemi sumarbúðanna. „Við tökum bara á því þegar þar að kemur, lúsmýið er þá bara í náttúrunni og þú eitrar ekki úti í náttúrunni. Við getum ekki losað okkur við allt það í náttúrunni sem okkur hentar ekki,“ segir Guðrún Nína. „Það er lítið við þessu að gera núna, annað en kannski að vera í síðerma fötum í skóginum. Við ætlum ekki að loka, fólk þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Þetta er bara áskorun sem við tökumst á við.“
Frétt mbl.is: Urðu að yfirgefa sumarhúsið