Fær að verða skráð sem móðir

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Héraðsdómur Reykjavíkur sló því í dag föstu að kona sem eignaðist ásamt manninum sínum barn með aðstoð staðgöngumóður í Idaho-ríki í Bandaríkjunum verður skráð sem móðir og forsjárforeldri barnsins í þjóðskrá Íslands.

Hjónin leituðu til bandarískrar stofnunar árið 2011 sem sérhæfir sig í staðgöngumæðrun. Var þar gerður samningur við konu sem gekk með barn fyrir þau. Við frjóvgun var notað sæði úr karlmanninum og egg úr ónafngreindri konu. Að meðgöngunni lokinni var svo leitað til héraðsdóms í Idaho þar sem, í samræmi við innihald samningsins, óskað var eftir því að þau yrðu skráð sem foreldrar barnanna sem þá voru fædd. Féllst dómstóllinn á það. Fyrir staðgöngumæðrunina greiddu þau 50 þúsund dollara auk útlagðs kostnaðar.

Árið 2014 komu þau til Íslands og óskuðu eftir því að þau yrðu skráð foreldrar barnanna, í samræmi við úrskurð héraðsdómsins í Idaho. Þjóðskrá hafnaði skráningu þeirra beggja á þeim grundvelli að fæðingarvottorð barna sem fæddust í þeim ríkjum Bandaríkjanna þar sem staðgöngumæðrun er heimil séu ekki í öllum tilfellum tekin gild. Var því óskað eftir frekari gögnum. 

Lögðu hjónin þá fram gögnin í málinu og útskýrðu ferlið. Aftur synjaði Þjóðskrá þeim um skráningu á þeim grundvelli að íslensk lög um feðrum og mæðrun barns geti ekki átt við í málinu þar sem ekki hafi sjálfkrafa stofnast til íslensks ríkisborgararéttar barnsins. Var litið á börnin sem bandaríska þegna.

Eftir þingfestingu málsins breytti Þjóðskrá ákvörðun sinni á þann veg að faðirinn, sem er hinn líffræðilegi faðir, hlaut faðernisviðurkenningu og var skráður forsjárforeldri barnsins en ekki móðirin.

Héraðsdómur taldi að samkvæmt íslenskum rétti sé viðurkennt að til móðernis geti stofnast án raunverulegrar meðgöngu og fæðingar barns. Þá var einnig tekið fram að það sé ekkert í íslenskum lögum sem banni þeim að stofna til fjölskyldutengsla erlendis með öðrum hætti. 

Var það því niðurstaða dómsins að fyrirvarinn sem Þjóðskrá hefur gegn skráningu móðernis verði ekki skýrður svo rúmt að heimilt hafi verið að synja um skráningu. Var því ákvörðun Þjóðskrár felld úr gildi og viðurkenndur réttur konunnar til þess að verða skráð sem móðir og forsjárforeldri barnanna að lögum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert