Undanfarna daga hafa borist margar fréttir af lúsmýi, sem er ný tegund í smádýrafánu Íslands. Mýið tók að herja á íbúa sumarhúsa beggja vegna Hvalfjarðar síðastliðna helgi en virðist nú hafa dreift úr sér og vera komið inn í borgina. Það er af ætt örsmárra mýflugna sem langflestar sjúga blóð úr öðrum dýrum, allt frá skordýrum til mannskepna. Þeir sem orðið hafa fyrir atlögum eru margir illa útleiknir.
Á vef húðlæknastöðvarinnar má finna ýmsan fróðleik tengdan mýbitum. Flest bendir til þess að ekki sé neinn munur á því hve oft fólk er bitið heldur hvernig þeir sem eru bitnir svara bitinu. Þeir sem svara bitum heiftarlega hafa myndað eins konar ofnæmi gegn eggjahvítuefnum sem mýið skilur eftir í húðinni. Algengustu einkennin eru rauðar bólur eða hnútar sem fólk klæjar í.
Í flestum tilvikum ganga einkennin yfir á nokkrum dögum en ef viðkomandi einstaklingur er með slæmt ofnæmi geta myndast blöðrur í húðinni. Ef bitin eru mörg eða svörunin kröftug geta fylgt því slappleiki eða hiti.
Ef fólk er bitið er hægt að fá ýmis kláðastillandi krem og sterakrem í handkaupum í lyfjabúðum en ef bitið er alvarlegt er best að fara til læknis. Sterkari kremin eru lyfseðilsskyld.
Mýið dregst að mannfólkinu vegna líkamshita, koltvísýrings í útöndunarlofti og svita. Þá er einnig líklegt að bakteríur sem búa á húð geti dregið að sér mýflugur. Áfengisneysla dregur að sér mýflugur og eykur því líkur á biti.
Klæðnaður og hanskar eru hjálplegir til að verja sig bitum. Þá eru til sérstök efni sem úða má á þau svæði á húðinni sem flugurnar eru líklegar til að bíta. Í flestum lyfjabúðum er hægt að fá fjölmörg efni til að draga úr áhuga mýflugnanna en gallinn við þau flest er að þau eru rokgjörn og því þarf að bera þau á sig með reglulegu millibili.
Hérlendis eru tvær ættir mýflugna þekktastar, rykmý og bitmý. Mestum hluta lífsferilsins eyðir bitmýið sem lirfa á botni straumvatns. Þar festa lirfurnar sig við undirlagið og fanga og éta það sem rekur úr vatnakerfinu. Því eru þær algengastar þar sem mest magn lífrænna agna flýtur um, eins og við útfall frjósamra stöðuvatna.
Lífsferill bitmýs getur spannað allt frá nokkrum vikum upp í eitt ár. Fljótlega eftir mökun verpa flugurnar og eru eggin fullþroskuð þegar kvenflugan skríður úr púpunni. Það eru einungis kvenflugurnar sem bíta og þær gera það eftir að þær hafa verpt í fyrsta skipti.
Á Íslandi flýgur bitmýið á vorin á Suðurlandi í maí og á Norðurlandi í júníbyrjun. Bestu skilyrði til þess að bitmýið fari af stað eru hægviðri, hlýindi og mikill raki. Þegar mikill vindur er eða kalt úti geta mýflugurnar ekki flogið og halda sig undir gróðri.