„Það er erfitt fyrir okkur að gera eitthvað,“ segir Helena Eiríksdóttir frá Ási í Hrunamannahreppi, en ferðamenn hafa flykkst í stórum stíl að lítilli náttúrulaug á landi í eigu föður Helenu.
Laugin heitir Hrunalaug og hefur verið í eigu fjölskyldunnar í marga ættliði. Langafi Helenu hlóð laugina, sem eitt sinn var aðeins sótt af heimafólki. Helena segir þá tíð þó liðna, og nú fari enginn í fjölskyldunni í laugina. „Við erum alin upp við það að þarna fái maður að vera í friði en það er ekki þannig lengur,“ segir hún.
Helena segir umgengnina oft á tíðum hafa verið slæma, en síðasta sumar varð sprenging í aðsókn þegar þúsundir ferðamanna lögðu leið sína í laugina. Helena segir ferðaþjónustufyrirtæki jafnvel hafa selt ferðir í laugina þrátt fyrir að fjölskyldan hafi aldrei auglýst hana sem ferðamannastað. Verulega var farið að sjá á landinu og segist Helena hafa verið orðin ráðalaus.
„Maður íhugaði að fara með jarðýtu á þetta þegar umgengnin var sem verst,“ segir hún og bætir við að fáar lausnir séu fyrir hendi. „Það er ekki hægt að girða þetta af nema með fjórtán metra rafmagnsgirðingu með háspennu sem aðeins fuglinn fljúgandi kæmist yfir. Allt annað yrði skemmt.“
Hún segir fjölskylduna þó ekkert hafa á móti því að fólk komi og njóti náttúrunnar, en umgengnin sé stærsta vandamálið. Hún hafi þó verið nokkuð sæmileg nú í sumar. „Ég hef einu sinni þurft að taka til þarna í ár, sem er ekkert miðað við hvernig þetta var í fyrra.“
Ferðamannastraumurinn hefur aukist jafnt og þétt í laugina síðan hún rataði í ferðabók um heitar laugar á Íslandi fyrir nokkrum árum. Í dag er víða fjallað um hana í leiðarvísum, ferðabloggum og á netinu en hún er jafnvel komin með sína eigin Facebook-síðu.
Fjölskyldan hefur aldrei rukkað fyrir aðgang í laugina en í haust setti Helena upp bauk fyrir frjáls framlög. „Það koma einhverjar krónur þar inn en ég ætla ekki að segja að við verðum milljónamæringar á því,“ segir hún og hlær. „Það koma samt þarna inn nokkrar krónur og við sjáum fram á að geta kannski keypt járnplötur til að laga skúrinn fyrir veturinn því hann er ekki á vetur setjandi.“
Helena segir fjölskylduna stefna á að setja nýtt þak á skúrinn, en ekkert viðhald hefur verið á honum síðustu ár. Helena og eiginmaður hennar reyna þó að fara að lauginni tvisvar sinnum í viku og tína upp rusl.
Þá ákváðu þau fyrir stuttu að fara með gröfu og gera skurð á sléttu fyrir framan lítið bílastæði við laugina, en þar höfðu ferðamenn ítrekað tjaldað. „Okkur er mjög illa við að fólk sé að tjalda þarna. Það er engin salernisaðstaða og við gerum okkur nokkurn veginn grein fyrir því ef fólk er þarna í sólarhring að það þurfi jafnvel að gera fleira en númer eitt,“ segir Helena og heldur áfram: „Mér finnst það ofboðslega ógeðslegt að fólk skuli skíta í umhverfið þarna.“
Þá segir Helena það hafa verið fjölskyldunni til happs að Gamla laugin á Flúðum hafi verið tekin í gegn og gerð að ferðamannastað. „Það tekur svolítið af traffíkinni og nú fara þessir hópar með ferðaþjónustufyrirtækjunum þangað frekar, enda góð aðstaða,“ segir hún. „Það er búið að byggja þar upp flotta ferðaþjónustu og við viljum að fólk fari og setji peninga út í samfélagið.“
Aðspurð segist hún sjálf ekki hafa áhuga á slíkri ferðaþjónustu við Hrunalaug. „Ef maður væri snjall viðskiptamaður og tilbúinn að fara í ferðaþjónustu væri auðvelt að byggja upp ferðaþjónustu og við þyrftum ekki einu sinni að auglýsa. En ég nenni ekki í ferðaþjónustu og svo kostar auðvitað líka að byggja þetta upp.“
Þá segir hún það einnig erfitt að fara í samkeppni við Gömlu laugina í svo litlu samfélagi. „En við bendum fólki á að fara í þessa æðislegu laug.“