Konur fá ekki að keppa á grasvelli

Kvennaliðið hefur undanfarin ár spilað á Torfnesvelli á Ísafirði eða …
Kvennaliðið hefur undanfarin ár spilað á Torfnesvelli á Ísafirði eða grasvelli í Bolungarvík - mynd frá Ísafirði. mbl.is/Kristinn

Meistaraflokkur kvenna hjá fótboltafélaginu BÍ Bolungarvík fær ekki að spila á grasvelli félagsins, aðeins gervigrasvelli. Meistaraflokkur karla fær hins vegar að keppa á grasvelli en æfir á gervigrasvelli.

Soffía Sóley Árnadóttir, vakti athygli á þessu í Facebook hópnum Beauty Tips í dag. Þar brutust út miklar umræður um muninn á umfjöllun um karla- og kvennafótbolta og voru sumir á því að konum í fótbolta væri almennt sýnt virðingarleysi.

„Við fáum ekki að spila á grasvellinum hérna á Ísafirði en við fáum það stundum þegar við keppum í Reykjavík,“ segir Soffía Sóley í samtali við mbl.is. Aðspurð um muninn á gras- og gervigrasvelli segir Soffía að það að spila á gervigrasvelli geti farið illa með fætur leikmanna og að völlurinn á Ísafirði sé í lélegu ástandi.

„Gervigrasvöllurinn hérna á Ísafirði hefur farið alveg virkilega illa með fætur margra leikmanna. Það er ekki nógu mikið gúmmí á honum og hann hefur bara eyðilagst með tímanum. Hann er alls ekki í góðu ásigkomulagi.“

Uppfært 00:07

Sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar segir í tölvupósti til mbl.is að um misskilning sé að ræða þar sem kvennalið BÍ leikur með sameiginlegu liði í Reykjavík og hefur liðið spilað heimaleiki sína þar. Undanfarin ár hafa allir heimaleikir kvennaliðsins verið spilaðir á grasi.

Frétt mbl.is: Konur fá víst að keppa á grasvelli

Gervigras er ekki „spari“

Soffía er sextán ára gömul og æfir með fjórða flokki hjá BÍ en hefur æft með meistaraflokki félagsins. Hún hefur rætt þetta við báða þjálfara sína og fengið lítil sem engin svör. „Þjálfari meistaraflokks sagðist ekki hafa hugmynd um af hverju við megum ekki keppa á grasvellinum en þjálfarinn í fjórða flokki sagði að það væri eins og þetta sé einhver heilagur völlur bara fyrir meistaraflokk karla,“ segir Soffía.

Um helgina kláraðist heimsmeistaramót kvenna í fótbolta. Þá vakti athygli að keppt var á gervigrasvelli. Soffía segir að það sýni hversu litla virðingu konur fá í heimi fótboltans. „Mér fannst það bara frekar leiðinlegt þegar ég sá þetta,“ segir hún. „Þetta er bara svo mikil lítillækkun, gervigras er ekki „spari“. Fólk er alveg að æfa á því en það á ekki að keppa á stórum mótum á gervigrasvöllum,“ segir Soffía og bendir á að Í heimsmeistaramóti karla í fótbolta er keppt á grasvöllum. „Það ætti ekki að vera munur en það er það. Karlar fá að keppa á grasi.“

Erfitt að finna fyrirmyndir ef maður þekkir enga

Soffía segir að gífurlegur munur sé á umfjöllun um kvennafótbolta og umfjöllun um karlafótbolta. Hún fylgist vel með umfjöllun um fótbolta í fjölmiðlum og segir muninn á þessu tvennu skammarlegan. „Mér finnst þetta bara geðveikt fúlt. Það er erfitt að finna sér kvenfyrirmyndir í fótbolta ef maður þekkir enga. Það er alveg sama hvað konur vinna mikið í fótbolta, það skiptir engu máli,“ segir Soffía og nefnir sem dæmi muninn á umfjöllun um fótboltalandslið karla og kvenna. „Ég þekki hvern einasta leikmann í karlalandsliðinu en þekki enga í kvennaliðinu,“ segir Soffía.

Soffía hefur haft áhuga á fótbolta síðan að hún var barn og hefur lengi spilað. Það var samt ekki fyrr en á þessu ári sem hún byrjaði að spila með liði og er eins og fyrr segir í 4. flokki og meistaraflokki hjá BÍ Bolungarvík. Í haust ætlar Soffía að hefja nám við Verkmenntaskólann á Akureyri og þar ætlar hún einnig að spila fótbolta. Eftir að hún byrjaði að æfa formlega fótbolta fór hún að pæla í mismuninum á umfjöllun um kvenna- og karlafótbolta. „Ég held að fjölmiðlar séu aðalhindrunin. Það er eiginlega ekkert talað um kvennafótbolta og það hefur áhrif. Það æfa rosalega margar konur fótbolta og áhuginn er til staðar. En ekkert breytist.“

Frétt mbl.is: Konur fá víst að keppa á grasvelli

Soffía Sóley í BÍ búningnum.
Soffía Sóley í BÍ búningnum.
Soffía Sóley er ósátt við umfjöllun fjölmiðla um kvennaflokka í …
Soffía Sóley er ósátt við umfjöllun fjölmiðla um kvennaflokka í fótbolta.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka