Fríkirkjuvegur 11 öðlast nýtt líf

Fáar húsbyggingar í Reykjavík hafa verið jafn mikið til umræðu á undanförnum áratug og timburhúsið sögufræga sem iðnjöfurinn Thor Jensen reisti við Fríkirkjuveg 11 árið 1908, eitt glæsilegasta timburhús landsins. Nú eru framkvæmdir hafnar í húsinu, mbl.is kíkti á hvernig gengur og hvað á að gera.

Ásgeir Ásgeirsson arkitekt hefur umsjón með framkvæmdunum og hann fór í gegnum hvað á að gera í húsinu sem mun hýsa safn um Thor Jensen og verður leigt almenningi undir móttökur og veislur.

„Fríkirkjuvegur 11 er stórmerkilegt hús sem Thor Jensen byggði á árunum 1907-1908 og þótti gríðarlegt mannvirki á þeim tíma og þykir enn,“ segir Ásgeir Ásgeirsson arkitekt hjá arkitektastofunni T.ark sem sér um að laga Fríkirkjuveg 11 að nýju hlutverki sínu og glæða það nýju lífi.

Húsið var byggt í ítölskum villustíl og sætir nú miklum endurbótum af hendi eiganda þess, Björgólfs Thors Björgólfssonar, sem ákveðið hefur að koma húsinu aftur í sitt fyrra horf og gefa því nýtt hlutverk sem gerir öllum kleift að sækja húsið heim og kynnast sögu þess og lífi.

„Eins og frægur maður sagði eitt sinn er hús án lífs einskis virði. Við viljum opna það almenningi svo að hægt sé að njóta þess,“ segir Ásgeir og líkir þessu við blóm í kassa sem sé einskis manns gaman sé því haldið lokuðu í kassanum.

Minjastofnun friðaði hluta innra byrðis hússins í maí 2015 en ytra byrðið var friðað í maí 1978.

Reiknað er með að kostnaður við endurbæturnar nemi um 400 milljónum í heildina. Hann gæti þó aukist komi í ljós ófyrirséðar hindranir þegar vinna hefst innandyra. Telur Ásgeir að ef hús sem þetta yrði byggt frá grunni á verðlagi dagsins í dag myndi það kosta a.m.k. 700 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert