Aðeins eitt öryggishlið var mannað og allavega fjögur til fimm voru ónotuð í morgun á Keflavíkurflugvelli. Þetta kom flatt upp á farþega, enda hafði flugstöðin rétt áður sent út tilkynningu þess efnis að farþegar væru beðnir um að mæta fyrr en áður út á völl vegna álags á vellinum.
Brynhildur S. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri, var ein þeirra sem fór út á flugvöll í dag, en hún segist hafa verið utan mesta annatíma, eða milli 10 og 11, þegar öll morgunflug voru farin. Í samtali við mbl.is segir hún að við öryggishliðin hafi verið svakaleg stífla og að margir farþegar hafi pirrað sig á því að aðeins væri unnið við eitt hlið.
Þegar Brynhildur spurði hvað orsakaði að hliðin væru ekki öll í notkun fékk hún þau svör að verið væri að bíða eftir varahlutum í nokkur hlið, en annar farþegi fékk þau svör að starfsfólk væri á námskeiði. Segir Brynhildur að þetta hafi birst sér sem furðulegt kerfi þar sem auðveldlega mætti bæta flæðið. Þannig ætti það að vera forgangur áður en talið færi að berast að því hvort stækka þyrfti flugstöðina, eins og hefur verið mikið í umræðunni.
Í dag sagði Morgunblaðið frá því að flugstöðin óskaði eftir því að farþegar kæmu 2,5 til 3 tímum fyrir brottför, en áður hefur oft verið miðað við 2 klukkustundir.